Aðeins um fimmtíu prósent þeirra sem voru 30 ára eða yngri á árunum 2008 og 2009, og áttu eftirstöðvar árið 2013 á verðtryggðu íbúðaláni, sótti um lækkun skulda í gegnum Leiðréttinguna. Þessi hópur fékk að meðaltali minnst umsækjenda í Leiðréttingunni svokölluðu. Í nýrri skýrslu fjármálaráðherra segir að ástæðan sé sú að þetta fólk var ýmist nýkomið út á fasteignamarkaðinn eða hafði fengið hlutfallslega mikla lækkun skulda í fyrri úrræðum, á borð við 110 prósent leiðina eða skuldaaðlögun.
Hlutfallslega flestir sem sóttu um lækkun húsnæðisskulda voru á aldrinum 46 til 55 ára árið 2013. Það fólk var þá 41 til 50 ára árið 2008 en aðgerðir stjórnvalda miðuðust við stöðu höfuðstóls í árslok 2013 og var ætlað að „leiðrétta“ áhrif verðbólguskots á verðtryggð húsnæðislán á árunum 2007 til 2010. Meðalskuldalækkun þessa aldurshóps var 1.360 þúsund krónur.
Súlurnar og vinstri ásinn á myndinni hér að ofan sýna hversu háar fjárhæð fólk fékk lækkað að meðaltali eftir aldri. Þeir sem voru 66 ára og eldri fengu að meðaltali um milljón króna skuldalækkun og fólk á aldrinum 56-65 ára fékk að meðaltali um 1.200 þúsund króna skuldalækkun. Yngsti hópurinn, sem árið 2013 var yngri en 35 ára, fékk að meðaltali minnst eða tæplega 950 þúsund krónur. Alls fengu 57 þúsund heimili höfuðstólslækkun á verðtryggðum íbúðalánum í tengslum við Leiðréttinguna. Hver aldursflokkur telur á bilinu um fimm þúsund til tæplega 16 þúsund heimili.
Meðaleftirstöðvar lána voru hæstar hjá fólki sem var árið 2013 á aldrinum 36 til 45 ára, eða um 22 milljónir króna. Þær voru lægstar hjá 66 ára og eldri, um 11,5 milljónir.
Hlutfallslega sóttu flestir um höfuðstólslækkun í sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur eða 81 prósent þeirra sem voru með eftirstöðvar árið 2013. Hlutfallslega fæstir sóttu um á Norðurlandi vestra eða um 73 prósent. „Í Reykjavík sóttu 78% um skuldalækkun, tæplega 22 þúsund heimili af þeim liðlega 28 þúsund heimilum sem skulduðu árið 2013. Meðalfjárhæðirnar voru mismunandi á milli landshluta í samræmi við mismunandi skuldastöðu heimila eftir svæðum. Meðalfjárhæðin var hæst í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, 1.388 þúsund krónur en lægst á Vestfjörðum, 737 þúsund krónur,“ segir í skýrslunni.
Meðalhöfuðstólslækkun var mest á Suðvesturlandi, nærri 1.400 þúsund hjá hverju heimili, og í Reykjavík þar sem lækkunin var að meðaltali rúmlega 1.200 þúsund.