Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) kaus ekki Sepp Blatter í forsetaskjöri Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) síðastliðinn föstudag. Þetta staðfestir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, í samtali við Kjarnann í dag.
Vefútgáfa hollenska dagblaðsins de Volkskrant birti frétt í dag þar sem fullyrt var að nokkur evrópsk knattspyrnusambönd hefðu gengið á bak orða sinna um að kjósa jórdanska prinsinn Ali bin al Hussein, sem var einn í mótframboði gegn Blatter í forsetakosningunum á föstudag. Þar er fullyrt að Ísland, Frakkland og Spánn hafi öll brotið samkomulag sem var milli evrópskra knattspyrnusambanda um að styðja Ali.
Geir segir þetta einfaldlega ekki vera rétt. Ísland hafi ekki kosið Blatter heldur staðið með Michel Platini, formanns knattspyrnusambands Evrópu, og kosið Ali.
Platini sagði að loknum fundi knattspyrnusambandanna í Zurich í Sviss fyrir á fimmtudag að mikill meirihluti knattspyrnusambanda í Evrópu ætlaði að styðja prinsinn gegn Blatter. Hann sagðist telja að það væri góður möguleiki á því að Blatter myndi tapa forsetakjörinu. Ef Blatter hins vegar sigraði í kosningunni gætu samskipti UEFA við FIFA verið í uppnámi.
Ásýnd FIFA beðið mikinn skaða
Blatter, sem er 79 ára, sigraði örugglega í kosningunum á föstudag og verður því að óbreyttu forseti FIFA næstu fjögur árin. Hann fékk 133 atkvæði en Ali 73. Þar sem hvorugur hlaut 2/3 hluta atkvæða þurfti að boða til annarra kosninga þar sem meirihluti atkvæða dyggði til sigurs. Áður en að af henni kom dró Ali framboð sitt hins vegar til baka.
Sepp Blatter sigraði með yfirburðum í forsetakjöri FIFA á föstudag. Hann er þó enn sem áður gríðarlega umdeildur. MYND:EPA
Ásýnd FIFA hefur beðið mikinn skaða undanfarna daga. Á miðvikudag í síðustu viku voru margir háttsettir stjórnarmenn og stjórnendur innan sambandsins handteknir og ákærðir. Sex þeirra voru handteknir í Sviss og átta til viðbótar verða ákærðir. Bandarísk yfirvöld fara með rannsókn málsins en grunur er uppi um að einstaklingarnar sem um ræðir hafi þegið mútur upp á hið minnsta 150 milljónir Bandríkjadala, eða sem nemur um þrettán milljörðum króna, vegna undirbúnings fyrir staðaval HM í fótbolta sem haldið verður í Rússlandi 2018 og Kata 2012. Mennirnir hafa verið ákærðir fyrir múturþægni, peningaþvætti og ýmislegt fleira.
Á meðal þeirra sem einnig verða ákærðir, en voru handteknir í Sviss á miðvikudag, eru Jack Warner, fyrrum varaforseti FIFA frá Trinidad og Tobago, Jeffrey Webb frá Cayman Islands, varaforseti framkvæmdastjórnar FIFA, og Eugenio Figueredo frá Úrúgvæ. Búist er við að nokkrir stjórnendur íþróttamarkaðsfyrirtækja frá Bandaríkjunum og Suður-Ameríku verði líka ákærðir en þeir eru grunaðir um að hafa greitt meira en 150 milljónir dala, um 20,2 milljarða króna, í mútur og greiðslur undir borðið og fengið í staðinn arðvæna fjölmiðlasamninga í tengslum við stórar knattspyrnukeppnir á vegum FIFA. Blatter er ekki á meðal þeirra sem hafa verið handteknir og hann segist ekki vera til rannsóknar.