Það má mögulega vera að Sony-lekinn sé enn þá svo fersk frétt að hún virðist vera við fyrsta yfirlit sú stærsta úr Hollywood í ár. Ég er búin að fara lauslega yfir árið og það voru nokkur atriði sem svo sannarlega stóðu upp úr á árinu en Sony lekinn er stærsta málið. Helsta ástæða þess að þetta er stærsta fréttin er það sem við vitum ekki um lekann.
Rekjum málið í grófum dráttum. 17.desember síðastliðin gáfu bandarísk stjórnvöld í skyn að Norður-Kórea hafi átt lykilþátt í Sony „hakkinu“. Strax daginn eftir stígur Josh Earnest, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, fram og kallar „hakkið“ alvarlegt þjóðaröryggismál. Washington Post stuttu síðar segir að Norður Kórea hafi á prjónunum hryðjuverkahótanir og muni ógna bíófarendum sem voga sér að fara á myndina „The Interview“. Um er að ræða kjánalega grínmynd þar sem Kim Jong Un er ráðinn af dögum og er megin ástæða reiði vegna hennar að baki lekans, svo er talið þegar þetta er ritað. Norður Kórea neitar allri sök opinberlega en alríkislögreglan FBI segist geta staðfest að „hakkið“ sé sannarlega frá þeim komið.
Allir topparnir hjá Sony skulfu í buxunum og hvert bíóhúsið á fætur öðru hætti við að sýna myndina. Þetta endaði með ákvörðun um að taka myndina af dagskrá alfarið en áætlaður frumsýningardagur var 25.desember. Ótti bíóhúsanna var rökstuddur þannig að ef einhver slys yrðu á bíógestum þá færu þeir í mál við bíóhúsið og bíóhúsið færi þá í mál við Sony fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir hryðjuverkaárásir. Hlutirnir æxluðust mjög hratt og Obama sá sig tilneyddan til að gefa út yfirlýsingu þar sem hann lýsti yfir vonbrigðum sínum á Sony fyrir að hafa tekið myndina af dagskrá. Hann hefði viljað að þeir hefðu talað við sig fyrst því að Bandaríkin lúffa ekki fyrir hryðjuverkahótunum og semja ekki við glæpamenn með hótunum.
Umræðan um að sýna myndina eða ekki náði hæstu hæðum sem endaði með því að hún var sýnd og fólk mætti með ameríska fánann og sýndi samstöðu með myndinni. Myndin gat væntanlega ekki fengið betri ókeypis auglýsingu og áður en hún kom út var hún orðin að eins konar frelsishetju, holdgervings frelsins. Fyrir vikið er núna önnur umræða komin í gang sem er: Var þetta allt planað? Var þessi leki alvöru hótun frá Norður Kóreu eða massíf fjölmiðlaáhætta sem Sony tók? Ég hallast sjálf að því að þetta hafi verið „hakk“ og árás á Sony kvikmyndaverið því að vandræðalegir rafpóstar frá Amy Pascal, yfirmanni Sony, til annarra toppa og leikara hafa sannarlega ekki hjálpað neinum þar innanhúss og hreinlega orðið til þess að fólk var látið fjúka.
Það er vitað mál í verkfærakassa blaðafulltrúans hérna að smella inn fréttum af skilnaði skjólstæðinga sinna um jólin.
Ég á bágt með að trúa því að þeir myndu taka slíka áhættu enda miklir fjármunir í húfi fyrir að sýna myndina ekki og mikið högg á almenningsáliti gagnvart Sony. Annað sem er verið að ræða er að mögulega sé þetta fyrrverandi starfsmaður Sony og er staðfest að kona sem var hátt sett í tölvudeild þeirra hafi verið rekin á árinu. Samkvæmt sögusögnum var hún feikilega fær og algjörlega búin þeim hæfileikum og starfsreynslu til að leka út rafpóstunum til að koma höggi á sinn gamla vinnustað. Ef þetta er hins vegar „stunt“ frá A-Ö og það kemst upp er víst að það sé skaði sem Sony kvikmyndaverið mun aldrei geta heilt frá gegnið.
Skilnaðir á árinu
Skilnaðaraldan er sjaldan stök hérna í borg englanna og enginn sem sleppur undan henni að manni virðist. Flest hjónabönd stjarnanna enda í skilnaði og þau örfáu sem halda verða að ævintýranlegum fyrirmyndum eins og Paul Newman og frú. Það er vitað mál í verkfærakassa blaðafulltrúans hérna að smella inn fréttum af skilnaði skjólstæðinga sinna um jólin. Þetta er gert viljandi til að drekkja fréttinni í súpunni af jólafréttum og fári. Og árið í ár er engin undantekning.
Clint Eastwood og frú skildu núna í des eftir 19 ára hjónaband. Kannski var það stóla ræðan hans á þingi Republikana sem gerði útslagið hjá Dinu. Íslandsvinurinn, Neil Young skildi við Pegi Young eftir 37 ára hjónaband og hoppaði beint í glænýtt samband með leikkonunni Darryl Hannah, en á milli þeirra er nú reyndar ekki nema 15 ár. Söngfuglinn Mariah Carey og Nick Cannon skildu líka þetta árið en þau höfðu nánast lifað í sundur í lengri tíma enda Nick ofsalega upptekinn af því að vinna í America´s got talent. Saman eiga þau tvíburana Marilyn og Morrocan, jebb strákurinn heitir Morrocan.
Sérstakasti skilnaður ársins er “huglæga afpörunin” hjá leikkonunni Gwyneth Paltrow og Chris Martin úr Coldplay. Hún skellti fram þessu hugtaki „afpörun“ þar sem þeim þætti ógurlega vænt um hvort annað og ætla að eiga fjölskylduna sína áfram án þess að þau tvö séu par lengur. Hann grét ekki lengi í koddann sinn og fór að hitta Jennifer Lawrence. Antonio Banderas og Melenie Griffith skildu eftir 18 ár af hjónabandi en það lifði mun lengur en flest alla grunaði en hjónabandið þeirra hefur verið hundelt af fjölmiðlum og sögusögnum um að endalokin væru nálægt. Allra nýjasta parið sem sem féll í valinn rétt fyrir jól eru þau Helena Bonham Carter og Tim Burton en þau voru saman í 13 ár en giftu sig aldrei.
Elevator Gate
Skandall ársins samkvæmt mínum stöðlum er lyftuóperan á Met gala góðgerðarkvöldinu í New York í maímánuði á árinu sem er að líða. Við náttúrulega erum ekkert að tala um neina forsendubresti, afsagnir ráðherra eða neitt slíkt heldur erum við að tala um Solange Knowles, systir Beyoncé.
Draumaparið Beyoncé og Jay Z fóru á þetta fína ball og eftir að því var lokið fara þau 3 í lyftu ásamt lífverði blessunarlega. Eitthvað hefur Jay Z sagt við Solange því hún trompaðist og réðist á hann sparkandi, gargandi og kýlandi. Myndir náðust af þeim vandræðalega brosandi trítlandi út úr lyftunni út í glæsibiðreiðar þar sem þær systur fóru saman í bíl og Jay fór einn í bíl. Þetta hefði líklega ekki kvissast út nema að öryggisvörður á hótelinu sem þau voru á seldi myndbandið úr lyftunni til slúðurmiðla fyrir um 250.000 dollara eða um 31 milljón íslenskra króna.
Úr varð skandall sem skók popp heiminn og sögusagnir um að hjónaband Bey og Jay Z stæði á brauðfótum náðu hæstu hæðum. Þau stóðu af sér mesta stórsjóinn og í raun kommentuðu sem minnst um þetta mál. Eina útskýringin sem kom fram var að þau væru venjulegt fólk og sem fjölskylda kæmu upp hitamál sem færu úr böndunum. Reyndar sagði Beyoncé í endurhljóðblöndun á Flawless lagi sínu að „...þegar þú ert með billjón dollara í lyftu þá mun allt verða vitlaust“. En þetta virðist ekki hafa skaðað Bey og Jay þar sem þau fóru á einn stærsta túr á ferlinum sínum í sumar og miðasalan stóð ekki á sér. Þar spiluðu þau á skilnaðarsögurnar með dramatík og lagavali og héldu okkur aðdáendum í andnauð, óskandi að þau myndu aldrei skilja. En svo virðist sem að allt hafi blessast hjá þeim ef maður dæmir af myndunum frá nýafstaðinni Íslandsför þeirra þá virðast þau voðalega hamingjusöm að sjá. Vonandi ná þau framhjá næstu jólum skilnaðarlaust.