Friðgeir Torfi Ásgeirsson, íslenskur hönnuður sem við nám í Hyper Island skólann í Svíþjóð, hefur hannað nýja tilkynningamiðstöð (e. notification center) fyrir iOS-stýrikerfið sem Apple-tæki keyra á, ásamt tveimur samstarfsmönnum sínum, þeim Petter Andersson og Jonas Jerlström. Hönnunin var hluti af verkefni sem þeir þrír unnu við skólann. Myndband af hönnun þeirra hefur vakið gríðarlega athygli og í gær hafði það verið spilað á fjórða hundrað þúsund sinnum. Þremenningarnir eru nú á leið til San Francisco í viðræður um samstarf við fyrirtækið Snowball.
Fjölmargir miðlar sem leggja áherslu á umfjöllun um tækni höfðu sömuleiðis fjallað um hönnunina í gær. Um er að ræða miðla frá Rússlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki, Danmörku, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Brasiliu, Spáni og fleirum löndum.
https://vimeo.com/118847246
Friðgeir segir að það sem útfærsla sem þremenningarnir bjuggu til veiti notendum betri yfirsýn ásamt því að gera þeim kleift að vinna með tilkynningar (e. notifications) án þess að fara úr tilkynningamiðstöðinni yfir í öppin sjálf. „Þannig sparar þessi útfærsla notandanum tíma og auðveldar honum að líta yfir tilkynningarnar sínar án þess að færa athyglina of mikið frá því sem hann er sjálfur að gera.“
Friðgeir er dags daglega þjónustustjóri hjá Meniga og hefur unnið hjá fyrirtækinu frá stofnun. Hann er í hlutastarfi þar á meðan að hann er í námi við Hyper Island. „Ég vildi bæta við mig hönnunarþekkingu ofan á háskólagráðu í tölvunarfræði. Hyper Island er á meðal fremstu skólanna í stafrænni hönnun (e. digital design) þannig að ég sóttu um í honum. Meniga er líka með skrifstofu í Stokkhólmi þannig að það hentar líka fínt.“
Snowball vill viðræður og samstarf
Ævintýrið tók óvænta stefnu síðustu daga þegar fyrirtækið Snowball setti sig í samband og lýsti yfir áhuga á útfærslu Friðgeirs og samstarfsmanna hans. Snowball var stofnað, og er rekið, af þeim Anisa Acharya og Jeson Petel.
Þeir stofnuðu á sínum tíma fyrirtækið SocialDeck sem Google keypti á 1,3 til 3,3 milljarða króna árið 2010. Þeir störfuðu síðan um tíma hjá Google þangað til að frumkvöðlakláðinn lagðist aftur á þá. Í kjölfarið var Snowball stofnað, en hugmyndin á bakvið fyrirtækið er að sameina öll samtöl notenda snjalltækja á einn stað. Í gegnum Snowball appið á notandinn því að fá öll samtöl sem eiga sér stað í gegnum samskiptarvettvanga á borð við Facebook Messenger, Whatsapp, Google Hangouts, Slack, í gegnum SMS, á Twitter, í gegnum Snapchat eða alla hina sem nú eru til, á einn stað.
Snowball hefur þegar náð sér í rúmlega 300 milljónir króna frá fjárfestum til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.
Friðgeir segir að hann og félagar hans hafi rætt við forsvarsmenn Snowball í gær. Þeir vilji bjóða hópnum til San Francisco til frekari viðræðna og samstarfs.