Aðkoma verkfræðistofunnar Eflu að undirbúningsvinnu fyrir Fossvogsbrú er eitt af allnokkrum atriðum sem fundið er að, í kæru sem barst í upphafi árs til kærunefndar útboðsmála vegna framkvæmdar og niðurstöðu hönnunarsamkeppni um brúnna. Kæran er enn til meðferðar hjá kærunefndinni.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kæra berst vegna hönnunarsamkeppni þessarar brúar, en teymið sem nú kærir, Úti og Inni arkitektar og samstarfsaðilar, var annað tveggja teyma sem kærðu fyrri hönnunarsamkeppni sem boðað var til árið 2019. Kærunefnd útboðsmála ógilti í kjölfarið val á sex teymum sem höfðu verið valin til þess að taka þátt í forvali samkeppninnar og hefja þurfti allt ferlið upp á nýtt.
Í kærunni sem nú er til meðferðar er gerð krafa um að samkeppnin og niðurstaða hennar verði dæmd ógild og áskilja kærendur sér rétt til þess að krefjast skaðabóta og endurgreiðslu alls kostnaðar yfir allt ferlið þar sem þau telja ljóst að þau hafi verið „dregin á asnaeyrum af ríkisstofnuninni Vegagerðinni, í meira en tvö ár.“
Segir „ekki í lagi“ að Efla hafi tekið þátt í útboðinu
Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Kópavogsbær standa að gerð hinnar fyrirhuguðu Fossvogsbrúar, sem á að bera almenningsvagna, gangandi og hjólandi vegfarendur og tengja Kárnesið við Vatnsmýrina.
Niðurstöður þeirrar hönnunarsamkeppni sem nú hefur verið kærð voru kynntar 8. desember síðastliðinn og varð brúarlausnin Alda eftir Eflu hlutskörpust. Fram hefur komið að stefnt sé að því að hefja vinnu við landfyllingar undir brúarsporðana strax á þessu ári, en brúin er algjör lykilþáttur í fyrsta áfanga Borgarlínu.
Kjarninn ræddi við Baldur Ó. Svavarsson arkitekt og framkvæmdastjóra Úti og Inni fyrir skemmstu og sagði hann blaðamanni að það væri einfaldlega „ekki í lagi“ að Efla hefði tekið í þátt í samkeppninni, þar sem fyrirtækið hefði verið í samstarfi við Vegagerðina og sveitarfélögin við gerð deiliskipulags og að sama skapi hluti af starfshóp um gerð Fossvogsbrúar.
Baldur sagði við Kjarnann að það væru „mýmörg dæmi“ um að arkitektar og verkfræðingar einfaldlega haldi sig frá opnum samkeppnum ef þeir hinir sömu hafi komið að einhverri forvinnu sem varða verkefnin. „Við höfum haldið okkur frá samkeppnum þar sem við höfum bara mögulega hugsanlega eitthvað vanhæfi,“ segir Baldur.
Í kærunni er bent á að lykilfólk hjá Vegagerðinni, þau Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri höfuðborgarsvæðis og Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs, sem bæði sitja í stjórn ríkisfyrirtækisins, hafi á árum áður verið lykilfólk hjá Eflu og að þátttakendur í samkeppninni um brúnna hafi fengið gögn sem þau tvö unnu um brúna er þau voru starfsmenn Eflu.
Fullyrt er að Vegagerðin hafi, í andsvörum sínum vegna fyrri kæru vegna samkeppninnar, farið með rangt mál um umfang þátttöku Eflu í undirbúningsvinnu fyrir brúnna og að stofnunin hafi séð sér hag í því að „minnka“ hlut Eflu í undirbúningsverkefnum fyrir hönnun brúarinnar.
„Það virðist sem umræddir ríkisstarfsmenn og tilteknir samgöngumannvirkjahönnuðir Eflu líti á sig sem eina heild sem krossar mörk ríkis og einkafyrirtækis, þar sem „hópurinn“ hefur það að markmiði í sameiningu að klófesta flaggskipsverkefni, fyrir sig og eigin starfsframa, verkefni sem þó skal fjármagna úr sameiginlegum fjárhirslum allra landsmanna,“ segir í kærunni.
Þar segir einnig að kærendur telji að þátttakendur í samkeppninni hafi „ekki verið metnir með hlutlægum hætti“ af hæfnis- og dómnefndarfólki og að „margvísleg tengsl“ þeirra sem sinntu hæfnis- og dómnefndarstörfum og undirbúningsverkefnum við Eflu verkfræðistofu geti ekki talist tilviljun, auk þess sem þau skapi mikla hættu á upplýsingaleka.
„Auðvelt hefði verið að velja annað fólk, sem hefur engin tengsl við Eflu Verkfræðistofu, en var ekki gert, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar kærenda um að slíkt hefði verið æskilegt,“ segir í kærunni.
Ráðgjöf eða undirbúningur leiði ekki sjálfskrafa til útilokunar
Samkvæmt svari vegna þessa máls sem Kjarninn fékk frá Vegagerðinni er málið í hefðbundnum farvegi fyrir kærunefnd útboðsmála og hefur stofnunin tekið til varna, með því að skila inn greinargerð til nefndarinnar.
Í svari Vegagerðarinnar er einnig bent á að samkvæmt 46. grein laga um opinber innkaup leiði ráðgjöf eða þátttaka fyrirtækis í undirbúningi innkaupa ekki sjálfkrafa til útilokunar þess frá innkaupaferli, sem síðar fari í hönd.
„Þess í stað hvíla ríkar skyldur á kaupanda að hann geri nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að fyrri aðkoma eða ráðgjöf raski ekki samkeppni, m.a. með því að láta öðrum þátttakendum og bjóðendum í té upplýsingar sem máli skipta og setja hæfilegan tilboðsfrest,“ segir einnig í svari frá Vegagerðinni.