Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokks, þar af þrír varaþingmenn, hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að gera ráðstafanir svo að bjóða megi út rekstur, viðhald og uppbyggingu Isavia á starfsemi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Þingmennirnir vilja að ráðherra búi svo um hnútana að „fagaðilum“ verði kleift að bjóða í rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á flugvallarsvæðinu, starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur, rekstur flugvalla og flugstöðvar og „aðra starfsemi sem nauðsynlegt er að sé innan haftasvæðis flugverndar“.
Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi í Reykjavík og varaþingmaður er fyrsti flutningsmaður tillögunnar, en auk hans eru þingkonurnar Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Hildur Sverrisdóttir og varaþingmennirnir Björgvin Jóhannesson og Arnar Þór Jónsson í hópi flutningsmanna.
Einn óhagkvæmasti og dýrasti flugvöllur í Evrópu
Í greinargerð með tillögunni segir að ef fjármálaráðherra nýti heimild sína samkvæmt lögum til að leyfa Isavia að „gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt“ og Keflavíkurflugvöllur verði þannig rekinn með blönduðu rekstrarfyrirkomulagi yrði „hægt að auka samkeppnishæfni flugvallarins í þágu neytenda“.
Þetta rökstyðja þingmennirnir með því að vísan í samkeppnismat OECD á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði frá 2020, þar sem fram kemur að Keflavíkurflugvöllur „sé einn óhagkvæmasti og dýrasti flugvöllur í Evrópu, jafnvel í samanburði við flugvelli af sömu stærð sem taka á móti svipuðum fjölda farþega og starfræktir eru við sambærilegar veðurfarsaðstæður“ og að „rekstur opinbera hlutafélagsins Isavia sé sá óhagkvæmasti í samanburði við rekstur allra annarra flugrekstraraðila í Evrópu“.
Í útdrætti úr skýrslu OECD sagði að líkur væru á að núgildandi regluverk og fyrirkomulag eignarhalds flugvalla á Íslandi kynni að stuðla að þessari niðurstöðu. Lagt var til af hálfu OECD að kannaðar yrðu leiðir til að „auka hvata Isavia á Keflavíkurflugvelli til að draga úr kostnaði og auka samkeppnishæfni“ til dæmis með breyttri skipan eignarhalds eða reksturs með útboði á rekstri Keflavíkurflugvallar, eða aðskildu útboði fyrir rekstur innanlandsflugvalla.
Þingmennirnir fimm segja þingsályktunartillögu sína fyrsta skrefið í þessa átt og minnast einnig á gagnrýni sem Isavia hefur hlotið frá Samkeppniseftirlitinu, en í áliti eftirlitsstofnunarinnar sem gefið var út í janúar á þessu ári sagði að háttsemi Isavia á síðustu árum hefði vakið upp „áleitnar spurningar“ um það hvernig ríkisfyrirtækið nálgaðist samkeppni og samkeppnismál.
Í greinargerð þingmannanna segir að fjárþörf Isavia verði mikil á næstu árum og bent er á að samkvæmt ársskýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2021 telji Isavia sig þurfa að lágmarki 12-18 milljarða króna í nýju hlutafé á næstu tveimur árum til að standa undir nauðsynlegum fjárfestingum. Að mati þingmanna Sjálfstæðisflokks er það vafamál „hvort réttlætanlegt sé að nota almannafé í áhætturekstur líkt og rekstur flugstöðvar“.