Hörður Ægisson, sem starfað hefur sem viðskiptablaðamaður á Morgunblaðinu um árabil, hefur ráðið sig til sameinaðs félags DV og Pressunnar. Ekki hefur fengist staðfest hvaða starfi Hörður mun gegna. Fyrr í dag var greint frá því á vef RÚV að Kolbrún Bergþórsdóttir, sem var síðast blaðamaður á Morgunblaðinu, muni verða á meðal ritstjóra DV og að hún hefji störf á mánudag. Von er á tilkynningu um breytingarnar innan skamms.
Hallgrímur Thorsteinsson var ráðinn ritstjóri DV 7. september síðastliðinn. Ráðning hans kom í kjölfar þess að Reynir Traustason lét af störfum eftir harðvítug átök um yfirráð yfir miðlinum. Í tilkynningu sem þáverandi stjórnarformaður DV, Þorsteinn Guðnason, sendi frá sér af þessu tilefni sagði hann: „Við ætlum okkur stóra hluti með DV og dv.is og ráðning reynsluboltans Hallgríms Thorsteinssonar er vonandi fyrsta skrefið af mörgum í þá átt“.
Þann 21. nóvember var greint frá því að Pressan, félag í meirihlutaeigu Björns Inga Hrafnssonar, hefði keypti um 70 prósent hlut í DV ehf. Í fréttatilkynningu sem Björn Ingi sendi frá sér í kjölfarið sagði: „Hallgrímur Thorsteinsson verður áfram ritstjóri blaðsins“. Nú, 39 dögum síðar,er Hallgrímur ekki lengur ritstjóri DV. Björn Ingi tók við sem stjórnarformaður DV 17. desember síðastliðinn.