Sveitafélagið Hornafjörður mun heyra undir umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi í stað umdæmis lögreglustjórans á Austurlandi. Ólöf Nordal, nýr innanríkisráðherra, hefur tekið ákvörðun þar um og birt á heimasíðu ráðuneytis síns.
Síðasta verk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, sem dómsmálaráðherra var að setja nýja reglugerð um lögregluumdæmi lögreglustjóra, þar sem sveitarfélagið Hornafjörður var látið teljast til umdæmis lögreglustjórans á Austurlandi. Með ákvörðun sinni færði þáverandi dómsmálaráðherra lögregluna á Höfn úr Suðurkjördæmi yfir í Norðausturkjördæmi, sem vill svo til að er hans kjördæmi.
Lögregluyfirvöldum og sveitarstjórnarmönnum barst tilkynning um reglugerðina í tölvupósti klukkan rétt rúmlega eitt þann 4. desember, en þá var nýhafinn ríkisráðsfundur á Bessastöðum þar sem Ólöf Nordal tók formlega við sem nýr innanríkisráðherra. Samhliða því færðust dómsmálin frá forsætisráðuneytinu aftur yfir í innanríkisráðuneytið.