Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir að óháðir matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að lánasafn AFLs sparisjóðs væri ofmetið um tæpan einn milljarð króna og við það varð eigið fé sjóðsins neikvætt. Það hafi verið honum nokkuð áfall þegar hann var upplýstur um alvarleika málsins af stjórn hans. Eftir að það hafi legið fyrir hafi það verið mat Fjármálaeftirlitsins að forsendur fyrir því að selja AFL væru brostnar þar sem sjóðurinn væri fjármálafyrirtæki á fallandi fæti. Því hafi ekkert annað verið í stöðunni en að sameina sparisjóðinn Arion banka, sem átti 99,3 prósent hlut í honum fyrir innlimunina. Arion sé eini langtímalánveitandi AFLs og hefur auk þess fellt niður með skilyrtum hætti lán sem honum voru veitt upp á 2,4 milljarða króna. Starfsemi AFLs hefði stöðvast án stuðnings Arion banka. Tilteknir einstaklingar reyni hins vegar að villa um fyrir almenningi og viðskiptavinum sjóðsins með óábyrgum málflutningi. Þetta kemur fram í grein sem Höskuldur skrifar í Morgunblaðið í dag.
Samkeppniseftirlitið heimilaði í síðustu viku sameiningu Arion banka og AFLs sparisjóðs eftir að mat KPMG á lánasafni sjóðsins leiddi í ljós að staða hans er mun verri en fram kom í síðasta ársreikningi. Í tilkynningu kom fram að AFL þyrfti á verulegu eiginfjárframlagi að halda til að uppfylla kröfur Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall og því hefði Samkeppniseftirlitið nú endurskoðað fyrri ákvörðun og heimilað Arion banka að sameina AFL sparisjóð bankanum þar sem sparisjóðurinn er talinn fjármálafyrirtæki á fallanda fæti.
Róbert kallaði Höskuld síbrotamann
Sameiningin hefur verið harðlega gagnrýnd úr ýmsum áttum, sérstaklega þar sem hópur undir forystu Tryggva Þórs Herbertssonar, með aðkomu sveitarfélaganna Skagafjarðar og Fjallabyggðar, hafði hug á því að bjóða í sjóðinn. Margir gagnrýnismenn, meðal annars Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, hafa látið í það skína að Arion banki hafi ákveðið að innlima sparisjóðinn til að ljúka deilum við hann fyrir dómstólum um úrlausn erlendra lána sem AFL tók hjá Arion banka, sem gætu gjörbreytt fjárhagsstöðu sjóðsins.
Aðrir gagnrýnismenn hafa gengið mun lengra. Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði, skrifaði pistil á vefinn siglo.is í síðustu viku þar sem hann sagði að ráðandi öfl í Arion banka hafi lagst svo lágt að innlima AFL sparisjóð með ofbeldi til að hylma yfir klúður yfirmanna bankans í uppstokkun á fjárhag hans. Þessi litla lánastofnun sem varð til við sameiningu Sparisjóðs Skagafjarðar og elstu peningastofnunar landsins, Sparisjóðs Siglufjarðar, mun nú renna inn í sjóði erlendra vogunarsjóða undir nafni Arion banka.
Þar hellir hann sér einnig yfir Arion banka, bæði almennt og vegna innlimunar AFLs sparisjóðs. Róbert sagði meðal annars að í stjórn Arion banka hafi settir útbrunnir einstaklingar með takmarkaða getu til umbreytingu sem þjóna vogunarsjóðum og að í bankastjórastólnum sitji síbrotamaður (Höskuldur Ólafsson) sem „á feril í fyrirtækjum sem ítrekað hafa verið í rannsókn vegna brota á samkeppnislögum“. Yfir fyrirtækjasviðinu sé „Quislingur“ (Halldór Bjarkar Lúðvíksson) sem hafi keypt sér friðhelgi hjá Sérstökum saksóknara gegn því að vitna gegn fyrrum samstarfsmönnum sínum.
Róbert hefur síðan þá hætt öllum viðskiptum við AFL, en hann hefur lagt milljarða króna í eftirtektarverða uppbyggingu á Siglufirði á undanförnum árum.
Höskuldur gefur lítið fyrir þessa gagnrýni í grein sinni í dag og segir að möguleg niðurstaða dósmála breyti engu um hversu alvarleg staða AFLs sé. " Það er miður að tilteknir einstaklingar reyni að villa um fyrir almenningi og viðskiptavinum sparisjóðsins með óábyrgum málflutningi hvað þetta varðar."