Hótel Saga hagnaðist um 46 milljónir króna á árinu 2014. Tekjur hótelsins jukust um 14 prósent milli ára og voru rúmlega 1,5 milljarður króna. Í fréttatilkynningu frá Hótel Sögu vegna þessa kemur fram að tekjuaukningin skýrist af auknum fjölda ferðamanna og betri nýtingu hótelsins. Hagnaður fyrir skatta, fjármagnskostnað og afskriftir, svonefndur EBITDA-hagnaður, var 268 milljónir króna.
Í tilkynningunni er einnig sagt frá því að Bændasamtök Íslands, sem eiga Hótel Sögu, hafi fyrr á þessu ári ákveðið að ganga ekki til viðræðna um sölu á hótelinu. Það hafi verið mat stjórnar samtakanna að hagstæðara væri að halda rekstri hótelsins áfram fremur en að ganga að fyrirliggjandi tilboðum. Sú afstaða hafi ekki breyst.
Reyndu að selja hótelið í fyrra
Hótel saga var auglýst til sölu í nóvember 2014. Í janúar 2015 tilkynntu Bændasamtök Íslands, sem eiga Hótel Sögu, að þau ætluðu ekki að selja hótelið á grundvelli þeirra tilboða sem þeim hafa borist í það. Hótelið sjálft er 209 herbergi en auk þess er ýmis önnur starfsemi í þessu 19 þúsund fermetra stóra húsi. Þar á meðal eru skrifstofur Bændasamtaka Íslands. Fjórir hópar skiluðu bindandi kauptilboðum í Hótel Sögu. Samkvæmt frétt DV um málið í janúar var verðið sem þeir unnu með í kringum fjórir milljarðar króna. Hóparnir fjórir sem skiluðu tilboðum voru hópur fagfjárfesta sem verðbréfafyrirtækið Arctica Finance setti saman, fjárfestar tengdir Keahótelum, sjóðsstýringarfyrirtækið Stefnir, sem er dótturfélag Arion banka, og jafnframt fagfjárfestar sem Straumur fjárfestingabanki stendur að baki.
Í tilkynningu frá Bændasamtökunum vegna þessa var meðal annars haft eftir Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni, formanni þeirra, að samtökin væru ánægð með þann áhuga sem komið hefði fram í söluferlinu. „Því miður bárust okkur ekki nægilega hagstæð tilboð til að skynsamlegt sé að selja eignina á þessum tímapunkti. Okkar markmið er að ávaxta eignir samtakanna með sem bestum hætti. Þegar við lögðum mat á fyrirliggjandi tilboð komumst við að þeirri niðurstöðu að á þessum tímapunkti þjónaði áframhaldandi rekstur hótelsins betur því markmiði. Það hefur verið mikil gróska í ferðaþjónustu á Íslandi undanfarin misseri. Næstu skref hjá okkur eru að hefja vinnu við endurbætur á hótelinu til að tryggja að Hótel Saga hafi áfram þann virðulega sess sem það hefur ávallt haft í hugum Íslendinga.“
Stutt síðan að fjárhagsleg endurskipulagning fór fram
Hótel Saga gekk í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á árinu 2013. Kjarninn greindi frá því í mars 2014 að Bændasamtökin hefðu lagt Hótel Sögu til 250 milljónir króna í nýtt eigið fé gegn því að fá skuldir Hótel Sögu niðurfelldar. Þetta var á meðal samkomulagsatriða í þríhliða samkomulagi Bændasamtakanna, Arion banka og Hótel Sögu ehf. um fjárhagslega endurskipulagningu hótelsins. Sindri vildi þá ekki upplýsa um hversu miklar skuldir hefðu verið niðurfelldar.
Í tilkynningu sem hann sendi í kjölfar umfjöllunar Kjarnans á þeim tíma sagði Sindri hins vegar að hlutafjárhækkununin hafi verið fjármögnuð „að stærstum hluta með lánsfé, eða 165 milljónir króna, og að hluta með sjálfsaflafé, eða 85 milljónir króna“.
Kjarninn fjallaði ítarlega um endurskipulagningu og mögulega sölu Hótel Sögu í fréttaskýringu í nóvember 2014.