Íslandsbanki segir að ástæðan fyrir að útlán bankans til byggingariðnaðar hafi minnkað sé samblanda af minnkandi eftirspurn eftir slíkum lánum og hraðari uppgreiðslum á útistandandi lánum. Ástæðan sé ekki sú að bankinn hafi synjað verkefnum. Þetta kemur fram í svari bankans við fyrirspurn Kjarnans.
Líkt og Kjarninn hefur fjallað áður hefur virði útlána íslensku bankanna til byggingarstarfsemi minnkað um tugi milljarða króna á síðustu mánuðum. Nettó útlán þeirra í þessum flokki hafa verið neikvæð átta ársfjórðunga í röð.
Útlánastaða Íslandsbanka til byggingariðnaðar á milli síðustu og þarsíðustu áramóta hefur minnkað um tvo milljarða króna, en það er svipuð minnkun og hefur átt sér stað hjá Kviku. Minnkunin er þó mun meiri hjá Landsbankanum, þar sem virði útlána í geiranum var 16 milljörðum krónum minni við síðustu áramót heldur en áramótin þar á undan.
Þrátt fyrir þessa minnkun sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í viðtali við mbl.is að bankinn hefði ekki dregið úr lánveitingum til íbúðauppbyggingar og að í rauninni sé mikil samkeppni á milli bankanna um hvert fasteignaverkefni.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans um þessi ummæli segir bankinn að útlánaminnkun Íslandsbanka í geiranum megi að hluta til skýra vegna hraðari uppgreiðslna byggingarverktaka sem hafa tekið slík lán. Hins vegar sé einnig minni eftirspurn eftir lánum í byggingargeiranum. Íslandsbanki bætir við að minnkunina megi ekki skýra með því að hann sé að hafna verkefnum.