Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, segist aldrei hafa gefið nein fyrirmæli til deildar eigin viðskipta hjá Kaupþingi. Þetta kemur fram í frétt mbl.is af réttarhöldunum í markaðasmisnotkunarmáli Kaupþings þar sem níu fyrrverandi starfsmenn bankans eru ákærðir, þar með talinn Hreiðar Már, fyrir að halda uppi gengi hlutabréfa Kaupþings, frá árinu 2007 og fram að falli bankans í október 2008.
Hreiðar Már kom í dómsal í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun til að gefa skýrslu, en hann hefur ekki verið viðstaddur aðalmeðferðina til þessa. Hann afplánar nú dóm sem hann fékk í Al Thani málinu svokallaða, en í því var hann dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi.
Samkvæmt frásögn mbl.is, sem hefur setið öll réttarhöldin til þessa, þá gat Hreiðar Már ekki farið í bíl á milli fangelsisins að Kvíabryggju og héraðsdóms, á degi hverjum, þar sem fangelsismálayfirvöld töldu það ekki forsvaranlegt sökum hás kostnaðar. Hreiðar Már bauðst til að borga fyrir bílferðina, en á það var ekki fallist. Honum bauðst að dveljast í litlum klefa í Hegningahúsinu við Skólavörðustíg, en það telur Hreiðar Már vera brot á mannréttindasáttmála Evrópu.
Í málinu er ákært fyrir bæði kaup eigin viðskipta á bréfum í bankanum og svo einnig að bankinn hafi selt sömu bréf áfram til þriðja aðila án þess að hafa nein veð nema bréfin sjálf.
Eftir langt og ítarlegt ávarp fyrir dóminn hóf saksóknari að spyrja Hreiðar um viðskipti eigin viðskipta. „Ég gaf aldrei fyrirmæli,“ sagði Hreiðar um viðskipti deildarinnar, samkvæmt endursögn mbl.is.
Hann tók fram að einhvern tímann hafi hann verið í samskiptum við einstaka starfsmann deildarinnar til að fá upplýsingar, en slíkt hafi verið takmarkað.
Hreiðar Már sagði í máli sínu, samkvæmt frásögn mbl.is, að skoða þyrfti málið í réttu samhengi, en eignir Kaupþings hafi verið 8.500 milljarðar. Eitt prósent af því er 85 milljarðar og sagði Hreiðar Már að þessi upphæð væri því ekki einu sinni 0,1% af eignum bankans.