Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, hefur hafið afplánun á fimm og hálfs árs fangelsisdómi sem hann hlaut fyrir aðild sína að Al-Thani málinu svokallaða. Fréttavefurinn Vísir greinir frá málinu, en samkvæmt frétt Vísis situr Hreiðar Már nú í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.
Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip og fyrrverandi hluthafi í Kaupþingi, sem hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm fyrir aðild sína að Al-Thani fléttunni, hefur sömuleiðis hafið afplánun og er nú vistaður á Kvíabryggju.
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hlaut eins og kunnugt er fjögurra ára fangelsisdóm í Hæstarétti vegna Al-Thani málinu svokallaða, sem er eitt stórfelldasta efnahagsbrot Íslandssögunnar.