Hreinn Loftsson, sem var ráðinn aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um síðustu mánaðamót, hefur komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi verið of fljótur á sér að þiggja boð Jóns, og hefur nú afráðið að láta af störfum.
Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar segir: „Þegar ég tók við starfi sem aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, fyrir rétt rúmum tveimur árum lét ég þau orð falla að ég liti á það sem mikinn heiður og faglega áskorun að taka að mér þetta verkefni. Árin hafa svo sannarlega verið viðburðarík. Málefni ráðuneytisins eru fjölmörg og spennandi. Ég tók því boði Jóns Gunnarssonar þegar hann bauð mér að halda áfram störfum við ráðherraskiptin í byrjun mánaðarins. Fljótlega komst ég þó að raun um að ég hafði verið of fljótur á mér og hef nú afráðið að láta af störfum.“
Hreinn lauk laganámi við Háskóla Íslands árið 1983 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti árið 1993. Hann á að baki fjölbreyttan feril í lögmennsku, atvinnulífi, stjórnsýslu og sem aðstoðarmaður ráðherra í nokkrum ráðuneytum frá árinu 1985 til 1992. Hann var meðal annars aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar þáverandi forsætisráðherra og var formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu um nokkurt skeið í kringum síðustu aldamót. Hreinn gegndi einnig stjórnarformennsku í fjárfestingarfélaginu Baugi um tíma og sat líka sem óbreyttur stjórnarmaður þar , en það fór í þrot eftir bankahrunið.
Í nóvember 2008 keypti Hreinn útgáfufélagið Birting, sem átti á þeim tíma DV. Hann seldi sig síðar út úr útgáfustarfseminni.