Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins og forseti Norðurlandaráðs, segir ákvörðun um að fresta fyrirhuguðum hringborðsumræðum ráðsins með rússneskum þingmönnum ekki tengjast ásökunum Rússa í garð Norrænu ráðherranefndarinnar, þar sem nefndin var sökuð um pólitíska starfsemi í Rússlandi. Kjarninn greindi frá málinu í janúar, en Norræna ráðherranefndin hætti starfsemi í Rússlandi í kjölfarið. Þessi mál voru til umræðu á örþingi Norðurlandaráðs sem fram fór nýverið í Kaupmannahöfn.
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur greint frá því að Norðurlandaráð vilji fresta áðurnefndum hringborðsumræðum með rússneskum þingmönnum sem og námsferð norrænna þingmanna til Rússlands, sem voru á dagskrá í vor.
Almennur erill opinbera ástæðan
Kosningar í Finnlandi og almennur erill í norrænu þjóðþingunum eru meginástæður frestunarinnar, samkvæmt fréttatilkynningu frá Norðurlandaráði. Á síðasta ári varð ástandið í Úkraínu til þess að ráðið ákvað að fresta hringborðsumræðum með Rússum sem fara áttu fram í Stokkhólmi síðasta vor. Víðtækari fundur með með rússneskum þingmönnum var hins vegar haldinn á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í október.
„Við erum bara að óska eftir nýjum tíma, en hvenær sá tími verður það, er ekkert hægt að segja til um það,“ segir Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, í samtali við Kjarnann. Þá segir hann að einhugur sé innan ráðsins um að óska eftir frestuninni.
Aðspurður um hvort samskipti Rússa og Norrænu ráðherranefndarinnar hafi spilað inn í ákvörðun forsætisnefndar Norðurlandaráðs að fresta hringborðsumræðum við Rússa, kvað Höskuldur svo ekki vera. „Við styðjum Norrænu ráðherranefndina heilshugar, og við höfum ályktað og gagnrýnt mjög framferði Rússlands innan Norðurlandaráðs, sem var í fyrsta skipti sem Norðurlandaráð ályktar um utanríkismál. Núna tökum við þessa ákvörðun og segjum að þessi tími henti ekki og það er afstaðan sem við gefum.“