Hljómsveitin Vök hefur fengið þónokkra athygli erlendis undanfarna mánuði og ef litið er yfir lögin þeirra á bæði Spotify og YouTube má sjá að sum þeirra hafa verið spiluð nokkur hundruð þúsund sinnum. Hljómsveitin er skipuð þeim Margréti Rán Magnúsdóttur, Ólafi Alexander Ólafssyni og Andra Má Enokssyni en þau hafa ekki spilað saman lengi. Árið 2013 spilaði hljómsveitin á sínum fyrstu tónleikum þegar hún sigraði Músíktilraunir. Eftir það hefur tekið við mikið lærdómsferli sem hefur verið gaman að fylgjast með.
Kjarninn fylgdist með hljómsveitinni þar sem þau spiluðu á þrennum tónleikum á Great Escape tónlistarhátíðinni í Brighton. Hátíðin er haldin í maímánuði ár hvert og er einn af stærstu stökkpöllum Evrópu fyrir ungar og upprennandi hljómsveitir, en fjöldi þekktra sveita hefur komið þar fram á undanförnum árum áður en þær öðluðust heimsfrægð. Má þar helst nefna Adele, Iggy Azaela, Royal Blood, The Vaccines og Alt-J.
Við sáum Vök spila fyrir fullu húsi á Patterns tónleikastaðnum á tónleikum sem haldnir voru af Iceland Airwaves til að vekja athygli á hátíðinni og íslensku hljómsveitunum sem saman voru komnar í Brighton. Allir hljómur var gríðarlega þéttur og seyðandi rödd Margrétar í fullkomnu jafnvægi við þungan raftaktinn. Frammistaðan var frábær og troðfullur salurinn kunni vel að meta það sem var í boði.
Vök treður upp á tónleikum sem haldnir voru af Iceland Airwaves í Brighton. Mynd: Vilhelm Jensen
Fullt hús á öllum tónleikum
Allstaðar þar sem sveitin tróð upp var ríkti eftirvænting og voru allir tónleikarnir þeirra spilaðir fyrir fullu húsi. En kom það Vök á óvart hversu margir komu til að hlusta?
„Það hefur verið mjög vel mætt á þá tónleika sem við höfum haldið erlendis og það kemur alveg á óvart. Bæði hvað það hefur verið vel mætt hér og líka um daginn þegar við spiluðum úti í Noregi. Við spiluðum til dæmis á mjög stórum tónleikastað í gær og daginn þar áður á litlum tónleikum fyrir framan svona 50 manns. Í dag var svo fullt hús aftur,“ segir Margrét Rán söngkona í samtali við Kjarnann.
Hljómsveitarmeðlimir á spjalli við blaðamann. Mynd: Vilhelm Jensen
Aðspurð finna þau fyrir mun meiri áhuga erlendis heldur en á Íslandi. „Strax eftir Músíktilraunir var mjög mikið að gera. Fyrri smáskífurnar okkar, Tension og Before fengu ágæta útvarpsspilun en þegar maður spilar mikið heima á Íslandi þá er maður fljótur að metta markaðinn. Svo höfum við ekki gefið neitt út í alveg eitt og hálft ár þannig það hefur skiljanlega dregist saman,“ segir Ólafur Alexander.
Ný EP-plata
Í gær kom út ný EP-plata frá Vök sem inniheldur fjögur lög. Eitt þeirra, If I Was, hefur nú þegar fengið töluverða spilun í útvarpi. Á nýju plötunni kemur fram ákveðin stefnubreyting í tónlist sveitarinnar. Hún er aðeins mýkri en á sama tíma er takturinn þyngri og elektrónískari. Einnig eru textarnir allir á ensku.
„Við erum bara að þróa hljóminn okkar. Það sem við höfðum gefið út áður var auðvitað mjög rólegt, þannig að jú okkur langaði að pumpa aðeins meiri stemningu í þetta,“ segir Margrét.
Tónlist er hark
Allir meðlimir Vakar eru í dagvinnu samhliða tónlistinni. Aðspurð segja þau að þetta sé mikið hark og ekki mikið upp úr tónlistinni að hafa.
„Fyrstu tvö, þrjú árin er maður allavega að skrimta. Við erum ekki á neinum launum, en það er svona eitthvað sem mann langar auðvitað mikið að gera. Það væri rosalega gaman að geta verið bara í því að búa til plötuna og lifa á músíkinni,“ segir Margrét. „Ef við getum það þá erum við búin að sigra heiminn,” bætir Andri Már við.
Þau segja STEF gjöld ekki skila miklu í bankann og á móti falli til mikill kostnaður til dæmis við ferðalög og vegna tónlistarmanna sem spila með þeim á tónleikum. Það hafi þó hjálpað til að fá fyrirgreiðslu frá útgefandanum Record Records þegar kom að því að vinna að nýju plötunni.
Hljómsveitin Vök. Mynd: Vilhelm Jensen
En hvað er framundan hjá Vök?
Draumurinn hjá Vök er að gefa út plötu í fullri lengd, en það er hins vegar ekki hlaupið að því. Þau segja að EP-plötur og smáskífur séu í raun hentugri miðill fyrir unga og upprennandi tónlistarmenn. Erlendir útgefendur séu tregari til að taka við hljómsveitum sem hafa þegar gefið út heila plötu.
„En aðalástæðan fyrir því að það hefur ekki komið meira efni frá Vök er sú að þetta er allt svo nýtt fyrir okkur. Við höfum ekki spilað saman lengi og við erum bara að þróa okkur. Síðustu tvö árin hafa í raun verið eitt stórt lærdómsferli. Okkur langar að gefa út heila plötu en það verður bara að gerast þegar það gerist,“ segir Ólafur Alexander við blaðamann.
Útgáfa EP-plötunnar í vikunni er hluti af stóru og leyndardómsfullu plani. Það sem er framundan hjá Vök á næstunni eru tveir stórir tónleikar í Hörpu þar sem þau koma ásamt Ásgeiri Trausta. Í sumar verður sveitin svo á faraldsfæti þar sem hún hoppar á milli evrópskra tónlistarhátíða, meðal annars í Lettlandi, Póllandi og Tékklandi. Í haust er svo í skipulaginu að fara í stutt tónleikaferðalag þar sem sveitin mun meðal annars heimsækja Þýskaland, Írland, Holland og Belgíu.
„Við erum allavega að spila á Hróarskeldu í sumar og ætli í kjölfarið fylgi ekki bara heimsyfirráð,“ segir Andri Már kíminn að lokum.