Orkufyrirtækið HS Orka hefur hafið gerðardómsferli til að losna undan orkusölusamningum sem fyrirtækið undirritaði við Norðurál í apríl 2007 vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Vinni HS Orka málið má teljast fullvíst að álver Norðuráls í Helguvík sé endanlega úr sögunni.
Í hálfsársuppgjörum HS Orku og Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls, kemur fram að HS Orka hafi stefnt Norðuráli fyrir gerðardóm þann 10. júlí síðastliðinn. Málsrök eru þau að ákvæði orkusölusamningsins hafi ekki verið uppfyllt og þar með sé hann ekki lengur í gildi. Norðurál telur þetta ekki rétt og ætlar að taka til varna. Búist er við því að málareksturinn gæti tekið allt að eitt og hálft ár. Niðurstaða gæti því legið fyrir undir lok ársins 2015.
Orkusölusamningurinn sem um ræðir er upp á 150 MW af orku. HS Orka getur ekki selt þá orku til annars kaupanda á meðan að hann er í gildi. Í dag, sjö árum eftir að samningurinn var undirritaður, er fyrirtækið því bundið inni í samkomulagi með þorra þeirrar orku sem það telur sig geta framleitt og selt í nánustu framtíð sem virðist ekkert vera að fara að verða að veruleika. Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa viðræður staðið yfir milli HS Orku og Century í mörg ár til að reyna að höggva á hnútinn. Þær viðræður hafa meðal annars staðið yfir af miklum krafti á þessu ári, en án árangurs. Því ákvað HS Orka að grípa til þess ráðs að reyna að losna út úr orkusölusamningnum á grundvelli þess að Norðurál væri ekki að standa við ákvæði í honum.
Hafa áður farið fyrir gerðardóm
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Norðurál og HS Orka fara fyrir gerðardóm. Norðurál stefndi orkufyrirtækinu fyrir slíkan í Svíþjóð árið 2010. Niðurstaða hans, sem var kunngjörð í desember 2011, var sú að orkusölusamningurinn ætti að standa en að hann verði að skila HS Orku viðunandi arðsemi, sem er sérstaklega skilgreind í niðurstöðunni. Þá hafnaði gerðardómurinn skaðabótakröfu Norðuráls á hendur HS Orku vegna vanefnda á samningnum.
Í raun gátu báðir deiluaðilar tekið eitthvað jákvætt út úr þeirri niðurstöðu. HS Orka var ekki skuldbundið til að selja orku á verði sem skilaði fyrirtækinu ekki arðsemi og Norðurál hélt þeim orkusölusamning sem var því mikilvægastur til að halda voninni um álver í Helguvík lifandi.
Michael Bless vill Landsvirkjun í leiðtogahlutverk
Norðurál hefur hug á að byggja álver í Helguvík í fjórum áföngum. 150 MW af orku þarf í hvern áfanga og Norðurál hefur lýst því yfir að álverið verði ekki klárað nema að búið sé að tryggja orku fyrir tvo áfanga, alls 300 MW. Helmingur þess átti því að koma frá HS Orku. Ekki hefur tekist að tryggja þá viðbótarorku sem til þarf og lágt heimsmarkaðsverð á áli á undanförnum árum hefur ekki skapað mikinn hvata til þess að ráðast í að klára Helguvíkurverkefnið.
Michael Bless, forstjóri Century Aluminum, var spurður út í Helguvíkurálverið á fundi með fjárfestum í tilefni af hálfsársuppgjöri fyrirtækisins í júlí. Þar sagði hann að það væri engin breyting á stöðu verkefnisins á milli ársfjórðunga. „Það sem við virkilega þurfum er að ríkisorkufyrirtækið, Landsvirkjun, standi upp í leiðtogahlutverk í þessu verkefni ef við ætlum að koma hlutunum í gang í náinni framtíð“.
Pólitískur þrýstingur á Landsvirkjun
Töluverður pólitískur þrýstingur hefur verið á Landsvirkjun að koma að Helguvíkurverkefninu. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráherra sendi Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunnar, til að mynda harðorð skilaboð á haustfundi fyrirtækisins í nóvember í fyrra um að hún væri „orðin ansi óþreyjufull og ég vil fara að sjá árangur og að verkefnin verði að veruleika. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Ég get nefnt álverið í Helguvík, framkvæmd sem ekki bara mun skipta Suðurnesjamenn máli heldur landsmenn alla og hefur beðið allt of lengi“.
Hörður hefur svarað því til að Landsvirkjun geti ekki annast orkuöflun fyrir álverið í Helguvík nema að litlu leyti. Sú orka sem Landsvirkjun hefur að bjóða í verkefnið er einungis á bilinu 50 til 100 MW og því dropi í hafið af því sem til þarf. Í desember sagði Hörður í samtali við RÚV að álverð þyrfti að hækka um 30 til 40 prósent til að raunhæft væri að ljúka samningum. Það hefur ekki gerst.