Stjórn HS Veitna hefur ákveðið að kaupa hlutafé af eigendum sínum fyrir tvo milljarða króna. Þá verður hlutafé félagsins fært niður samhliða, en hver eigandi mun halda eftir hlutfallslega sömu eign í félaginu eftir niðurfærsluna. Reykjavík vikublað greinir frá málinu á forsíðu í dag.
Þar segir að stærstu hluthafar félagsins hafi samþykkt gjörninginn. Reykjanesbær á um helmingshlut í HS Veitum og tekur um milljarð af fénu til sín, Hafnarfjarðarbær á fimmtán prósenta hlut og fær 300 milljónir sem notaðar verða til að greiða niður skuldir bæjarins. Ríflega þriðjungshlutur í HS Veitum er í eigu HSV ehf., einkahlutafélags í eigu Heiðars Más Guðjónssonar fjárfestis, lífeyrissjóða og fleiri, og fær félagið um 600 milljónir króna í sinn hlut samkvæmt frétt Reykjavík vikublaðs.
Stefnt er að því að ganga frá gjörningnum fyrir næsta aðalfund félagsins í mars. Með honum koma hluthafar HS Veitna sér undan skattgreiðslum vegna arðgreiðslna, en ef bókfært verð hlutabréfa er hærra eða það sama og söluverðið verður ekki til skattskyldur söluhagnaður. Af arðgreiðslum þarf hins vegar að greiða 20 prósenta skatt.
Ef milljarðarnir tveir hefðu verið teknir út úr HS Veistum sem arðgreiðsla, ættu skattgreiðslur því að nema um 400 milljónum króna, að því er fram kemur í Reykjavík vikublaði.