Stjórn HSBC hefur ákveðið að draga saman seglin í Bretlandi, vegna versnandi afkomu, og fækka um átta þúsund starfsmönnum af þeim 48 þúsund sem starfa fyrir bankann á þessu mikilvægasta einstaka markaðssvæði hans.
Frá þessu er greint á vefsíðu breska ríkisútvarpsins BBC. Stuart Gulliver, forstjóri bankans, segir í að þetta verði gert að mestu í gegnum starfsmannaveltuna í bankanum, en á heimsvísu verður starfsmönnum fækkað um 25 þúsund, eða nærri tíu prósent af heildarfjölda starfsmanna bankans og dótturfélaga. Hjá bankanum og dótturfélögum starfa samtals 266 þúsund manns, og er fyrirtækið eitt stærsta fyrirtæki Bretlands.
Þessar aðgerðir eru hluti af tíu ára skipulagi og stefnu bankans, en alþjóðleg fjárfestingabankastarfsemi á í vök að verjast þessa dagana, að því er fram kemur í umfjöllun BBC. Ástæðan er meðal annars breytt lagaumhverfi frá því fyrir hremmingarnar á fjármálamarkaði, árin 2007 til 2009, og einnig breytt landslag í alþjóðlegum fjárfestingum, en mun meiri áhersla er nú á fjármögnun verkefna í Asíu en áður var. Þetta er meðal þess sem stjórn HSBC horfir til, þar sem starfsemi bankans í Kína á að aukast.
Vonir standa til þess að bankinn dragi úr kostnaði upp á fimm milljarða Bandríkjadala, eða sem nemur 650 milljörðum króna.