Svissneski bankinn HSBC aðstoðaði þúsundir manna um allan heim, en þó einkum í gegnum útibú í Bretlandi, við að skjóta fé undan skatti með því að fela peningalegar eignir fyrir skattayfirvöldum. Þetta sýna ítarleg frumgögn úr viðskiptamannagagnagrunni bankans, sem tölvunarfræðingurinn Hervé Falciani, sem starfaði sem sérfræðingur hjá HSBC, komst yfir og lak til valinna fjölmiðla auk alþjóðasamtaka um rannsóknarblaðamennsku (International Consortium of Investigative Journalists). Hann komst yfir gögnin haustið 2007, flúði til Frakklands með lögregluna á hælunum og hefur síðan dvalið í Frakklandi undir vernd yfirvalda þar. Árið 2010 beitti þáverandi fjármálaráðherra Frakklands og núverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, sér fyrir því að gögnin yrðu notuð til þess að koma upp um franska skattsvikara. Ákveðið var að höfða ekki mál gegn Falciani eftir að gögnin höfðu verið skoðuð og greind, og nýtur hann verndar á þeim forsendum.
Á meðal fjölmiðla sem hafa birt ítarlegar umfjallanir úr gögnunum eru The Guardian, Bild, Le Monde og rannsóknarblaðamennskuþátturinn BBC Panorama. Meðal þess sem fram kemur í gögnunum er að sterkefnað þekkt fólk, ekki síst sem tengist afþreyingar- og tískuiðnaði, Formúlu 1 kappakstri og stjórnmálum, hafi kerfisbundið svikið undan skatti með leynilegum reikningum sem HSBC aðstoðaði við að koma upp og reka. Meðal þeirra sem þetta gerðu voru spænski Formúlu 1 ökuþórinn Fernando Alonso, fyrirsætan Elle McPherson, tónlistarmaðurinn Phil Collins, leikarinn Christan Slater og Hosnai Mubarak, fyrrverandi einræðisherra Egyptalands, að því er fram kemur í Bild. Tugþúsundir annarra viðskiptavina HSBC í London gerðu slíkt hið sama.
Phil Collins, tónlistmaðurinn þekkti, er einn þeirra sem skaut háum fjárhæðum undan skatti með hjálp HSBC.
Lögregluyfirvöld í Sviss, Frakklandi, Bretlandi og víðar, eru nú að rannsaka þessi kerfisbundnu skattaundanskot HSBC og viðskiptavina bankans, en í yfirlýsingu sem bankinn sendi frá sér í gær, kemur fram að öll starfsemi bankans á sviði einkabankaþjónustu hafi verið breytt frá því sem var, og ekkert þessu líkt sé nú gert. Þá hafi bankinn minnkað hópinn sem sé í þessari tegund einkabankaþjónustu úr um 30 þúsund viðskiptavinum í 10 þúsund.
Nýir stjórnendur bankans hafi einnig tekið þessa þjónustuþætti til gagngerðar endurskoðunar á undanförnum árum, eftir að yfirvöld fóru að spyrja spurninga sem byggðust á fyrrnefndum gögnum, og hefur eignastýring viðskiptavina í einkabankaþjónustu verið minnkuð úr 78 milljörðum punda í 45 milljarða punda, sem jafngildir rúmlega 8.900 milljörðum króna.