HSBC bankinn veitti útgáfufélagi breska blaðsins Telegraph 250 milljóna punda lán, skömmu áður en ljóst varð, með uppljóstrun, að svissneski bankinn hafði aðstoðað viðskiptavini sína við að skjóta eignum undan skattayfirvöldum. Sérstaklega var þessi starfsemi umfangsmikil í London, þar sem eigendur Telegraph, Frederick og David Barclay, eru með bankaviðskipti sín. Þetta hefur vakið spurningar um hvort þetta sé ástæða þess, að blaðið fjallaði ekki með gagnrýnum hætti um málefni sem snéru að HSBC, allt frá ársbyrjun 2013, heldur voru þau þögguð niður.
Í The Guardian í dag kemur fram að lánið hafi verið veitt 14. desember 2012 og allt upp frá því, hafi umfjöllun blaðsins um málefni sem snéru að HSBC, meðal annars ýmsar vísbendingar sem snéru að skattaskjólsgögnunum svonefndu, verið í skötulíki. Peter Oborne, fyrrverandi ritstjóri skrifa um stjórnmál hjá Telegraph, sagði upp störfum á dögunum, þegar umræða um skattaskjólsgögn HSBC komst í hámæli. Hann skrifaði langt bréf, þar sem hann upplýsti um það, að Telegraph hefði ekki skrifað með gagnrýnum hætti um málefni HSBC, vegna tengsla eigenda blaðsins við bankann.
Roy Greenslade sets out some of the questions that the Telegraph must answer: http://t.co/q5qFexk7D4
— Peter Oborne (@OborneTweets) February 19, 2015
Auglýsing
Enn fremur segir í frétt The Guardian, að eigendurnir, Fredrick og David, hafi verið í persónulegri ábyrgð fyrir 250 milljóna punda lánveitingunni. Þetta hafi meðal annars leitt til þess, að ritstjórn Telegraph hafi verið sett undir þrýsting frá eigendunum, um að fjalla ekki með gagnrýnum hætti um málefni HSBC.