Ekkert verður af fyrirhuguðum kaupum kínverska fjárfestisins Huang Nubo á 100 hektara jörð í Norður-Noregi, að því er fram kemur í frétt norska vefmiðilsins Nord24.
Norskir fjölmiðlar greindu frá því í maí í fyrra að norski fjárfestirinn og flugstjórinn Oli O.K. Giæver Jr. hefði selt kínverska auðkýfingnum og kaupsýslumanninum 100 hektara jörð í Seljevik í Lyngen. Nú er haft eftir norska fjárfestinum að ekkert hafi orðið af sölunni og hún muni ekki ganga eftir „á meðan Norðmenn og Kínverjar leysa ekki úr málum sín á milli.“ Giæver kennir sem sagt slæmum samskiptum Noregs og Kína um ákvörðun Huang að draga sig út úr jarðakaupunum.
Kína og Noregur hafa eldað grátt silfur saman síðan að norska nóbelsnefndin lagði til árið 2010 að kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo yrði sæmdur friðarverðlaunum Nóbels.
Umdeildur fjárfestir
Aðspurður neitar Giæver að norsk stjórnvöld hafi haft afskipti af viðskiptunum, en þegar hann var spurður hvort kínversk stjórnvöld hafi komið í veg fyrir þau svaraði hann blaðmanni Nord24: „Ég veit það eitt að Kínverjar ráðast ekki í neinar fjárfestingar fyrr en Noregur og Kínverjar lappa upp á samskipti sín á milli.“
(Frá vinstri) Huang Nubo, Kurt Arild Hansen ráðgjafi g Ola O.K. Giæver. Norðmennirnir heimsóttu Huang til Peking.
Svæðið sem Huang Nubo hugðist kaupa í Seljevik er skipulagt undir frístundabyggð og leigustarfsemi samkvæmt svæðisskipulagi Lyngen. Huang hafði uppi áform um að byggja hótel og reka stórfellda ferðaþjónustu á svæðinu, en fyrirhuguð jarðakaup hans á Íslandi og Svalbarða hafa vakið athygli á heimsvísu. Þá hafa félög Huangs í Kína sætt opinberri rannsókn þar í landi vegna umfangsmikilla svikamála sem hefur sömuleiðis vakið athygli. Kjarninn greindi frá rannsókn kínverskra stjórnvalda á félögum Huang í október.
Miklar væntingar til Huang Nubo
Norski fjárfestirinn, sem ætlaði að selja Huang jörðina í Seljevik, sem og forseti bæjarstjórnar í Lyngen höfðu miklar væntingar til áforma Kínverjans á svæðinu og sögðu í fjölmiðlum að uppbyggingin yrði mikil lyftistöng fyrir Seljevik.
Hugmyndin að viðskiptunum kviknaði eftir að sendiherra Kína heimsótti Giæver-fjölskylduna í október árið 2013. Þá sagði fjárfestirinn sendiherranum að hann ætti jörð sem búið væri að skipuleggja og væri til sölu, og þá kom sendiherrann Giæver í samband við Huang Nubo.
Seljavik er 3,5 kílómetra frá Lyngseiðinu (Lyngseidet) og er í eins og hálfs klukkutíma aksturfjarlægð frá Tromsø.
Frá Seljevik.