Efnahagskrísur þarf til að hagsmunahópar sem njóta einokunaraðstöðu á litlum markaði eins og á Íslandi láti undan kröfum um að taka upp frjálsari viðskiptahætti og taka þátt í stærra markaðssvæði eins og EFTA og EES. Þetta kemur fram í fjórða hlaðvarpsþætti Völundarhúss utanríkismála Íslands.
Í þættinum ræðir Baldur Þórhallsson, þáttastjórnandi, við Kristrúnu Heimisdóttur lektor í lögfræði og Gylfa Zoega prófessor í hagfræði við Háskóla um Evrópustefnu íslenskra stjórnvalda.
Fram kemur hjá viðmælendum að margir Íslendingar skilji alþjóðasamvinnu sem ásælni af hálfu annarra ríkja annarra ríkja og marki það utanríkisstefnu landsins.
Þátttaka Íslands í áfallastjórnun Evrópusambandsins í gegnum samninginn um EES eins og til að mynda varðandi sóttvarnir, bóluefnakaup og aðstoð við að koma Íslendingum til landsins eins og í upphafi COVID-19 faraldursins skiptir sköpum um geti íslenska stjórnvalda að takast á við yfirstandandi farsótt, samkvæmt viðmælendum þáttarins.
Byggist Evrópustefnan á áfallastjórnun?
Þau ræða meðal annars hvort Evrópustefna Íslands byggist á áfallastjórnun, þ.e. hvort íslensk stjórnvöld ákveði eingöngu að taka aukinn þátt í samvinnu ríkja Evrópu ef þau standa frammi fyrir áfalli eða krísu.
Sem dæmi megi nefna að á 7. áratugnum fóru íslensk stjórnvöld ekki að huga að alvöru að inngöngu í EFTA fyrr en við blasti djúpstæð efnahagslægð í kjölfar þess að síldin hvarf. Þannig biðu stjórnvöld í tíu ár með það að ganga í EFTA eftir fríverslunarsamtakanna árið 1960. Stjórnvöld sáu ekki ástæðu til að ganga í samtökin á tímum mikillar efnahagsuppsveiflu hér á landi á 7. áratugnum.
Fram kemur í þættinum að Ísland hafi ákveðið að ganga í Evrópska efnahagssvæði (EES) vegna þessa að öll önnur EFTA ríki voru að gerast aðildar að EES. Hefðu Íslendingar staðið utan EES hefði samkeppnisstaða íslenskra útflutningsfyrirtækja orðið miklu lakari en til að mynda fyrirtækja í Noregi og Svíþjóð sem þau áttu í samkeppni við.
Ísland hafi gengið í Schengen vegna þess að allar hinar Norðurlandaþjóðirnar voru að gerast aðildar að Schengen og ef Ísland hefði ekki fylgt þeim eftir hefðu Íslendingar þurft að sýna vegabréf til að ferðast til Norðurlandanna. Forsætisráðherra Íslands á þeim tíma, Davíð Oddsson, var mótfallinn aðild að Schengen en taldi að Íslendingar myndu ekki sætta sig við að þurfa að sýna vegabréf þegar þeir ferðuðust til Norðurlandanna og sætti sig því við aðildina.
Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu (ESB) níu mánuðum eftir hrundið. Þegar efnahagslífið rétti síðan tiltöluglega fljótt úr sér settu stjórnvöld aðildarviðræðurnar í bið.
Evrópustefnan byggist á því hvað Íslendingum stendur til boða
Viðmælendur telja einnig að Evrópustefna Íslands mótist af því að stöðugt sé verið að bregðast við ákvörðunum annarra ríkja hvað þátttöku þeirra varðar í samvinnu Evrópuríkja. Þannig hafi Íslands gefist tækifæri til að ganga í evrópska efnahagssvæðið og Schengen. Íslendingar ráði í raun ekki endilega för þegar kemur að þátttöku þeirra í Evrópusamvinnunni heldur byggist Evrópustefnan á því hvað þeim standi til boða.
Landfræðileg lega Íslands, jaðarstaða í Evrópu, var einnig til umræðu og áhrif hennar á afstöðu landsmanna til þátttöku í Evrópusamvinnunni. Það að Ísland er á áhrifasvæði Bandaríkjanna hafi til að mynda áhrif á Evrópustefnu Íslands.
Það hvort kjósendur treysti betur eigin stjórnvöldum eða Evrópusambandinu skipti einnig miklu um það að hvaða marki lönd taka þátt í samvinnu Evrópuríkja.
Einnig er rætt um hvaða ástæður liggi að baki miklum ágreiningi um þátttöku Íslands í samvinnu Evrópuríkja og hvort að það sé tabú í íslenskri stjórnmálaumræðu að tala um að deila valdi með öðrum ríkjum í alþjóðastofnunum.
Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan: