Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í dag að vísa hugmyndum félagsins Esjuferju ehf., um kláf upp Esjuhlíðar, til frekari skoðunar í borgarkerfinu. Málið á sér nokkra forsögu, en sömu aðilar viðruðu hugmyndir um svifferju upp á Esjuna við borgina á fyrri hluta síðasta áratugs, en þær náðu ekki fram að ganga.
Hugmynd félagsins er enn sú sama og áður, að fólk geti stigið upp í kláf við Mógilsá og tekið hann upp á Esjubrún, en einnig verði millistöð á Rauðhóli. Forsvarsmenn verkefnisins létu hafa eftir sér að stefnt væri að því að ferja 150 þúsund manns upp á topp árlega, þegar Esjuferjan var til umfjöllunar árið 2014.
„Esjuferjan verður nýr kafli í íslenskri ferðamennsku, útivistarlífi og afþreyingu sem mun bjóða upp á nýjar leiðir til að njóta Esjunnar, sem er eitt af helstu einkennum Reykjavíkurborgar. Kláfferjur hafa gert fólki kleift að upplifa útsýnis og útivistar á óviðjafnanlegum stöðum sem annars hefðu eingöngu verið aðgengileg fámennum hópi. Esjuferjan mun bjóða íslenskum og erlendum gestum heilnæma útivist, hreyfingu og umhverfisvæna afþreyingu. Sérstaklega ber að horfa til þess að hópar með takmarkaða hreyfigetu, þar á meðal stækkandi hópur eldri borgara fá með Esjuferju tækifæri til að njóta upplifana sem annars væru ekki í boði,“ segir í erindi sem Esjuferja sendi borginni í byrjun október.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði fram tillögu fyrir fund borgarráðs um að málið yrði skoðað nánar, og að lagt yrði mat á raunhæfni hugmyndanna. Tekið er fram í tillögu borgarstjóra að engin vilyrði liggi fyrir af hálfu Reykjavíkurborgar heldur hafi Esjuferðir ehf. unnið að framgangi málsins á eigin kostnað og áhættu. Í erindi félagsins til borgarinnar segir að aðstandendur félagsins hafi þegar lagt beint og óbeint framlag sem nemur tugum milljóna króna til verkefnisins.
Í tillögu borgarstjóra segir að skoða þurfi hvort ríkið vilji gera nýjan leigusamning við borgina um landið sem Esjuferðir vilja leigja undir verkefnið. Einnig er lagt til að umhverfis- og skipulagssvið fjalli um skipulagslegar forsendur verkefnisins uppsetningar og reksturs á farþegaferju í Esjuhlíðum og veiti umsögn um það og eigi samráð við hlutaðeigandi aðila.
„Ljóst er að Reykjavíkurborg ber skylda til að auglýsa eftir áhugasömum eða eftir atvikum afla tilboða, veiti umhverfis- og skipulagssvið jákvæða umsögn og land ríkisins reynist til ráðstöfunar vegna verkefnisins. Lagt er til að skrifstofu borgarstjóra- og borgarritara verði falið að taka til frekari skoðunar hvort tillagan sé þess eðlis að hún feli í sér útgáfu sérleyfis í skilningi laga og aðra nauðsynlega greiningu, þ.m.t. veltumat, varðandi auglýsinga og/eða útboðsþátt málsins verði afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs jákvæð,“ segir einnig í tillögu borgarstjóra, en auk þessa er ljóst að framkvæma þarf umhverfismat á verkefninu, en Umhverfisstofnun komst að niðurstöðu um það árið 2014 þegar verkefnið var til umræðu.
Stórt álitamál
Sem áður segir var tillagan um þetta samþykkt í borgarráði í dag, með atkvæðum fulltrúa meirihlutaflokkanna fjögurra. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
„Hér er borgarráð að samþykkja að kanna forsendur verkefnisins, að umhverfis- og skipulagssvið skoði skipulagsþáttinn og eignaskrifstofan kanni afstöðu ríkisins sem landeiganda. Verði niðurstaða þeirra athugana að halda áfram með verkefnið verður auglýst eftir áhugasömum aðilum sem myndu þá ráðast í gerð umhverfismats, hönnunar, fjármögnunar og reksturs. Endanleg ákvörðun um það ræðst hins vegar af niðurstöðum skipulagsvinnu og þess umsagnar- og samráðsferlis sem fram færi samhliða,“ sagði í bókun fulltrúa meirihlutans um málið.
Fulltrúar flokkanna í minnihluta borgarstjórnar bókuðu einnig um málið. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sögðu að ef kláfurinn kæmi til framkvæmda væri „mikilvægt að vandað verði til verka við alla hönnun, þess sé gætt að ferjan falli vel að umhverfi og náttúru og þess gætt að neikvæð umhverfisáhrif og rask verði sem minnst“.
Fulltrúi Sósíalistaflokksins í borgarráði sagði mikilvægt að fleiri aðilar en umhverfis- og skipulagsráð fengju að koma með umsögn um málið. „Þar má nefna íbúaráð og íbúa almennt. Íbúar á Kjalarnesi hafa áður lýst yfir andstöðu sinni við þessar fyrirætlanir,“ sagði í bókun Trausta Breiðfjörð Magnússonar.
Líf Magneudóttur áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna í ráðinu sagði að um stórt álitamál væri að ræða. „Taka verður afstöðu til margra flókinna spurninga m.a. um aðgengi allra að náttúrunni, um verðmæti og gildi Esjunnar og hvort rétt sé að framkvæmdin, ef skynsamleg þykir, sé unnin af einkaaðilum. Framkvæmd sem þessi hlyti að hafa margháttuð áhrif á umferð og nýtingu svæðisins og yrði að leggja mat á heildaráhrifin, s.s. afleiðingar aukinnar umferðar, áskoranir varðandi öryggismál o.fl. Einnig liggur ekki fyrir hvort aðrir staðir í nágrenni Reykjavíkur kunni að vera heppilegri en Esjan fyrir kláf. Þá ber að athuga að framkvæmdin á eftir að hafa varanleg sjónræn áhrif á ásýnd Esjunnar,“ sagði í bókun Lífar.