World Wrestling Entertainment, eða WWE, rifti samningi sínum við fjölbragðaglímukappann og kvikmyndaleikarann Hulk Hogan í dag, eftir að fjölmiðlar fjölluðu um að hann hefði farið niðrandi orðum um þeldökka í kynlífsmyndbandi. Fréttamiðillinn The Guardian fjallar um málið.
Slúðurblöðin The National Enquirer og Radar Online greindu í dag frá innihaldi umrædds kynlífsmyndbands þar sem Hogan, sem heitir réttu nafni Terry Bollea, heyrist tala af kynþáttahatri og nota n-orðið svokalla ítrekað.
Fréttirnar í dag komu á sama tíma og Hogan býr sig undir málflutning í máli sem hann höfðaði á slúðurmiðilinn Gawker Media, fyrir að birta áður annað kynlífsmyndband af honum og sömu konu, Heather Clem, sem var þá gift vini Hogans, DJ Bubba „The Love Sponge“ Clem.
Hulk Hogan sendi frá sér fréttatilkynningu í dag, þar sem hann baðst afsökunar á ummælum sínum. „Fyrir átta árum notaði ég gróft og meiðandi orðalag í samtali. Það var óafsakanlegt af mér að hafa notað slíkt orðbragð, það er ekkert sem afsakar það og ég biðst fyrirgefningar á að hafa gert þetta,“ segir Hogan í tilkynningunni.
„Þetta er ekki sá maður sem ég hef að geyma. Ég trúi mjög á að hver manneskja í heiminum sé mikilvæg og ekki skuli mismuna fólki eftir kynþætti, kyni eða skoðunum. Ég hef valdið sjálfum mér vonbrigðum að að ég hafi notað svona orðalag, sem er móðgandi og samræmist ekki mínum eigin skoðunum.“
Allar upplýsingar um Hogan virtust hafa verið fjarlægðar af vefsíðu WWE seint í gærkvöldi, og allur varningur með nafninu hans sömuleiðis. Talskona WWE staðfesti við fjölmiðla í dag að samningnum við Hogan hefði verið rift, en vildi ekki fara nánar út í ástæður riftunarinnar.
Hogan sendi frá skilaboð á Twitter eftir að fréttist af því að hann væri orðinn atvinnulaus.
In the storm I release control,God and his Universe will sail me where he wants me to be,one love. HH
— Hulk Hogan (@HulkHogan) July 24, 2015