Húsleit stendur nú yfir á skrifstofum HSBC í Genf í Sviss í tengslum við upplýsingar um skattaskjól. Saksóknarar segja að verið sé að rannsaka peningaþvætti.
Rannsóknin beinist að bankanum en gæti einnig á næstunni beinst að einstaklingum sem eru grunaðir um að hafa tekið þátt í peningaþvætti.
Rúm vika er liðin frá því að umfangsmikil gögn um starfsemi bankans komu fyrir sjónir almennings. Í gögnunum sem Herve Falciani, fyrrverandi starfsmaður bankans, lak til fjölmiðlar kemur fram að HSBC í Sviss hefði hjálpað ríkum viðskiptavinum sínum að skjóta peningum undan skatti. Sex viðskiptavinir bankans sem eru í skjölunum tengdust Íslandi. Falciani hefur boðið íslenskum stjórnvöldum gögnin að kostnaðarlausu, að sögn Evu Joly.
HSBC birti heilsíðuauglýsingar í mörgum stórum dagblöðum í Bretlandi um helgina þar sem beðist var afsökunar á málinu.
Franco Morra, bankastjóri bankans, hefur sagt að búið væri að loka öllum reikningum sem ekki samræmdust miklum kröfum bankans. Gögnin væru áminning um að gamla viðskiptamódelið um einkabankaþjónustu í Sviss væri ekki lengur ásættanlegt.
Fréttin er í vinnslu.