Áætlaðar breytingar á húsaleigubótakerfinu munu ekki koma öryrkjum og öldruðum eins vel og þeim sem eru í námi eða vinnu. Þetta kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarp um húsnæðisbætur. Húsnæðisbætur verða talsvert hærri en núverandi húsaleigubætur eru, grunnfjárhæðin verður 31 þúsund á mánuði, en meðalhækkunin verður hlutfallslega minni hjá öryrkjum en t.d. þeim sem eru vinnandi eða í námi.
Þetta helgast af því að í frumvarpi Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um húsnæðisbætur, er húsaleigukerfið að mörgu leyti gert líkara vaxtabótakerfinu. Meðal þess sem á að breyta er skilgreining á þeim tekjum sem koma til skerðingar á húsnæðisbótum. Í núgildandi lögum um húsaleigubætur eru allar tekjur þeirra sem eiga lögheimili í húsnæðinu taldar sem tekjur, þar með taldar tekjur barna umsækjenda sem eru 20 ára og eldri, nema þeim sem eru í skóla hálft árið eða meira. Bætur almannatrygginga og elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr séreignarlífeyrissjóðum eru þó undanþegnar og teljast ekki til tekna sem geta valdið skerðingu á bótum.
Í nýja kerfinu verður þessu breytt og allar skattskyldar tekjur heimilismanna 18 ára og eldri munu teljast tekjur, þar á meðal greiðslur almannatrygginga. Þetta er til samræmis við vaxtabótakerfið, og að því er fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins á frumvarpi húsnæðismálaráðherra er þetta til þess fallið að „gæta meira jafnræðis og samræmis í tekjutilliti kerfisins.“
Það hefur þó fyrrgreind áhrif, að leiða til aukinnar skerðingar hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum „en ella væri og vegur það á móti hækkun bótafjárhæða í frumvarpinu,“ að því er segir í umsögn fjármálaráðuneytisins.
Ráðuneytið bendir þó líka á að almennt hafi tekjuskerðingar mun minni áhrif hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum en öðrum. Önnur ráðstöfun í nýju kerfi er sú að húsnæðisbætur geta numið allt að 75 prósentum leigufjárhæðar, en þessi prósenta er 50 í núverandi kerfi. Þegar þessar breytingar eru teknar með telur fjármálaráðuneytið að ekki verði svo mikill munur á aukningu styrksins til öryrkja og annarra.
Myndi helst skila sér til hátekjufólks
Eins og greint var frá í síðustu viku telur fjármálaráðuneytið að nýja kerfið myndi skila sér helst til heimila sem hafa miklar tekjur. Hlutfallslega yrði niðurgreiðsla húsaleigu meiri eftir því sem tekjur heimila eru hærri. Þetta er þvert á yfirlýst markmið frumvarpsins, sem var ætlað að auka stuðning við efnalitla leigjendur.
Þá myndi frumvarpið að mati fjármálaráðuneytisins leiða til þess að leiguverð hækki, sem kynni að skila leigusölum meiri ávinningi en leigjendum. Útgjöld ríkissjóðs gætu aukist um rúma tvo milljarða króna á ári og verði um 6,6 milljarðar frá og með 2017, ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt, en árið 2017 á að innleiða nýja kerfið. Í umsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram líka að ekki hafi verið gert ráð fyrir auknum útgjöldum í fjárlögum eða ríkisfjármálaáætlun.
Almennar húsaleigubætur munu færast til ríkisins frá sveitarfélögum samkvæmt frumvarpinu, en sérstakar húsaleigubætur verða ennþá á forræði sveitarfélaganna. Þetta fyrirkomulag myndi að mati fjármálaráðuneytisins auka rekstrarkostnað og flækja ferlið fyrir hluta þeirra sem þiggja bætur.
Velferðarráðuneytið benti á það þegar þessar fréttir voru sagðar í vikunni að grunnbætur verði hækkaðar verulega, og frítekjumark hækki sömuleiðis. Þetta séu mikilvægar forsendur að baki útreikninga á húsnæðisbótum, en þeim hafi verið sleppt í umfjöllun fjölmiðla um frumvarpið.