Tvö húsnæðismálafrumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, voru ekki lögð fram á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Fjármálaráðuneytið er enn að vinna kostnaðarmat vegna frumvarpanna. Frumvörpin eru annars vegar um húsnæðisbætur og hins vegar um stofnkostnað vegna félagslegs leiguhúsnæðis.
Þetta þýðir að frumvörpin tvö, sem vonast hafði verið til að yrðu afgreidd úr ríkisstjórn í dag og skilað inn í þingið, koma ekki fram fyrr en eftir páska. Þá fara þau inn í ríkisstjórn og þaðan inn í þingið. Hefðbundinn frestur til að leggja fram frumvörp á Alþingi rennur út í kvöld og því er ljóst að frumvörpin tvö þurfa að fara með afbrigðum inn í þingið.
Matthías Imsland, aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra, staðfestir þetta við Kjarnann. Tafirnar breyti hins vegar engu um málið, Eygló sé algjörlega staðráðin í að koma öllum húsnæðisfrumvörpum sínum í gegn.
Á aukafundi ríkisstjórnarinnar í gær voru tvö önnur frumvörp Eyglóar um húsnæðismál samþykkt. Það voru frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum og frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög.