Miklar og róttækar breytingar verða gerðar á íslenskum húsnæðismarkaði ef tillögur verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála verða að frumvarpi og síðar lögum. Tillögurnar verða kynntar í dag. Á meðal þess sem þar er lagt til er að Íbúðalánasjóður verði lagður niður í núverandi mynd og að hann hætti að lána, en lánasafn hans og skuldabréf verði látin „vinda“ sig niður yfir líftíma skuldabréfanna. Enn sem komið er mun vera ekki fyrirhugað að fara í einhverskonar skilmálabreytingu á skuldabréfunum sem myndi gera Íbúðalánasjóði kleift að greiða þau upp fyrr en áður. Tillögur starfshópsins voru ræddar í ríkisstjórn í morgun. Eygló Harðardóttir velferðarráðherra ber ábyrgð á vinnunni.
Í stað þessa kerfis verður farið svokölluð „dönsk-leið“ og sett upp nýtt húsnæðislánakerfi. Þar munu sérstök húsnæðislánafélög annast lánveitningarnar. Félögin munu gefa út sértryggða skuldabréfaflokka og afrakstur af sölu þeirra mun notast til húsnæðislána. Eigendur þessarra félaga verða íslensk fjármálafyrirtæki en auk þess verður sett upp nýtt opinbert húsnæðislánafélag. Munurinn á því og Íbúðalánasjóði er að enginn ríkisábyrgð verður á starfsemi þess. Ríkið er því ekki alveg horfið af íbúðalánamarkaði.
Húsnæðisbætur og stofnstyrkir
Þá er stefnt að því að bregðast við kröfum um aukna niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði með sérstökum húsnæðisbótum. Vaxtabætur og húsaleigubætur verða sameinaðar undir því nafni. Þetta er hugmynd sem síðasta ríkisstjórn vann líka mikið með en heimildir Kjarnans herma að myndarlegri fjárhæð verði varið í að hækka þessar bætur til handa húsnæðiseigendum og leigjendum.
Tillögurnar munu líka miða að því að taka á því neyðarástandi sem ríkir á húsnæðismarkaði vegna skorts á minni íbúðum og gríðarlega háum leiguverði. Lagt verður til að leigufélög sem verða ekki rekin með hagnaðarsjónarmiðum muni fá sérstaka stofnstyrki frá hinu opinbera. Með þessu á að hvetja til byggingar á þessum eignum sem mest vöntun er á sem fyrst. Auk þess verða ýmsir hvatar sem eiga að auka framboð á leiguíbúðum kynntir.
Ítarlega verður fjallað um málið og afleiðingar þess í Kjarnanum á fimmtudagsmorgun.