Taka þarf opinberan húsnæðisstuðning til heildstæðrar endurskoðunar og tryggja að hann nýtist fyrst og fremst þeim sem á þurfa að halda. Húsnæðisstuðningurinn og stuðningskerfin þurfa að vera dýnamísk og þróast í takt við aðstæður á húsnæðismarkaði.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem starfshópur um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði kynnti á opnum kynningarfundi í dag í höfuðstöðvum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í Borgartúni.
Starfshópurinn var skipaður af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í febrúar síðastliðnum en hlutverk hans var að fjalla um leiðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Hópurinn leggur fram 28 tillögum í sjö flokkum.
Í skýrslunni er vísað til álits Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 11. maí síðastliðnum þar sem meðal annars var bent á nauðsyn þess að endurhanna opinberan húsnæðisstuðning og beina honum með markvissari hætti að leigjendum og í fjárfestingu í félagslegu húsnæði. Með því verði stuðlað að hagkvæmara leiguverði og lægri byrði húsnæðiskostnaðar. Áhætta væri fólgin í því að húsnæðisverð hafi hækkað umfram ákvarðandi þætti og skörp leiðrétting húsnæðisverðs gæti veikt efnahag heimila og þar með fjármálageirans.
Hækkun húsnæðisverðs hefði jafnframt haft neikvæð áhrif á getu fólks til að kaupa eigið húsnæði, sérstaklega ungt fólk og tekjulága. Því væri mikilvægt að taka á áhættuþáttum tengdum húsnæðismarkaði með skilvirkum þjóðhagsvarúðartækjum og auknu framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði.
Nauðsynlegt að bregðast við hækkandi húsnæðisverði
Fram kemur í skýrslunni að hjá starfshópnum hafi verið mikil samstaða um mikilvægi þess að tryggja aukið framboð íbúða til að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði.
„Nánast fordæmalaus hækkun húsnæðisverðs undanfarið ár umfram tengda þætti er að mati hópsins til þess fallin að skapa áhættu og óstöðugleika í húsnæðismálum og nauðsynlegt er að bregðast við til að verja efnahag heimilanna og húsnæðisöryggi landsmanna, einkum þeirra tekjulægri.
Það tekur hins vegar töluverðan tíma að auka framboð íbúða og getur langur tími liðið frá því ákvörðun er tekin um byggingu þar til íbúð er tekin í notkun, jafnvel mörg ár. Að mati hópsins verður því að leggja mikla áherslu á langtímaáætlanagerð í húsnæðismálum þar sem árlega er greind þörf fyrir uppbyggingu og gerð áætlun sem miðar að því að byggja í takt við þörf,“ segir í skýrslunni.
Fylgja þurfi því eftir með reglulegum hætti hvernig áætlunin stenst með því að fylgjast með íbúðum í byggingu. Allt sé þetta hægt með þeim stjórntækjum sem þróuð hafa verið á undanförnum árum, stafrænum húsnæðisáætlunum sveitarfélaga, íbúðaþarfagreiningu, mannvirkjaskrá og talningu SI og HMS á íbúðum í byggingu. Enn þurfi þó að skerpa á sameiginlegri sýn og stefnu sveitarfélaga og ríkis og er tillaga gerð um það af hálfu starfshópsins að þessir aðilar komist að samkomulagi um uppbyggingu íbúða til samræmis við þörf til næstu fimm til tíu ára.
Hugsa þarf ferla í skipulagsgerð og byggingarmálum sem einn heilstæðan feril
Að sama skapi þurfi regluverk og framkvæmd í skipulags- og byggingarmálum að styðja við uppbyggingu íbúða og tryggja öryggi og gæði mannvirkjagerðar á sem skilvirkastan hátt. Hugsa þurfi ferla í skipulagsgerð og byggingarmálum sem einn heilstæðan feril og samþætta eins og kostur er.
Endurskoða þurfi löggjöf í skipulagsmálum og hverfa frá forskriftarákvæðum í byggingarreglugerð og innleiða þess í stað markmiðsákvæði. Regluverkið þurfi að styðja við nýsköpun í byggingariðnaði, stafræna ferla og vistvæna mannvirkjagerð þannig að Ísland geti náð markmiðum sínum í loftlagsmálum. Rannsóknir og þróun sé mikilvægur þáttur sem þarf að stórefla með tilkomu Asks mannvirkjarannsóknarsjóðs.
Þörf á aðgerðum sem miða að því að auka húsnæðisöryggi leigjenda
Samkvæmt skýrsluhöfundum er húsnæðisöryggi og jafnt aðgengi allra að húsnæði á viðráðanlegu verði auk þess forgangsmál.
„Ljóst er að staða leigjenda út frá húsnæðisöryggi og byrði húsnæðiskostnaðar er lakari en þeirra sem eiga eigin íbúð. Aðgerða er þörf sem miða að því að auka húsnæðisöryggi leigjenda og lækka byrði húsnæðiskostnaðar hjá efnaminni leigjendum,“ segir í skýrslunni.
Að mati starfshópsins er almenna íbúðakerfið þar lykilþáttur og leggur hópurinn til að áhersla verði lögð á áframhaldandi uppbyggingu kerfisins og aukna hlutdeild þess á leigumarkaði á komandi árum. Þar að auki verði regluverk á leigumarkaði tekið til endurskoðunar með það í huga að jafna stöðu samningsaðila og gera leiguhúsnæði að raunverulegum og öruggum valkosti um búsetu. Einnig leggur starfshópurinn áherslu á mikilvægi leigumarkaðar til þess því að tryggja hreyfanleika vinnuafls og virkni vinnumarkaðar á einstökum svæðum.
Húsnæðisstuðningi skal fyrst og fremst beina að tekju- og eignalágum einstaklingum og fjölskyldum
Nauðsyn og virkni húsnæðisstuðnings var eitt af megináhersluatriðum starfshópsins sem var sammála um að húsnæðisstuðningi skuli fyrst og fremst beina að tekju- og eignalágum einstaklingum og fjölskyldum.
„Lykilupplýsingar um húsnæðisöryggi og húsnæðisstuðning þurfa að liggja fyrir sem næst rauntíma þannig að hægt sé að bregðast við tímanlega þegar þess er þörf. Stuðningskerfin þurfa hvort í senn að vera stöðug en jafnframt dýnamísk og fylgja þróun á húsnæðismarkaði á hverjum tíma. Núverandi stuðningskerfi bera að vissu leyti merki um stöðnun og þarfnast endurskoðunar í heild sinni.“
Að lokum fjallaði starfshópurinn um nauðsyn þess að samhliða uppbyggingu íbúða komi til uppbygging samgönguinnviða og að greiðar og öruggar samgöngur væru forsenda hagkvæmrar búsetu. Í því samhengi telur hópurinn tilefni til að skoða enn betur áhrif samgöngukostnaðar á búsetu.