Eftir nokkra mánuði mun unglingspiltur frá smábænum Hill Valley í Kaliforníu mæta á okkar tíma á fljúgandi Delorean sportbíl úr fortíðinni, í þeim tilgangi að bjarga fjölskyldunni sinni. Hann mun notast við svifbrettin okkar og færanlegu sorpbrennslukjarnaofnanna okkar, og mun verða vitni að því þegar hafnaboltaliðið Cubs frá Chicago tryggir sér heimsmeistaratitilinn.
Jæja, kannski er lítið spádómsgildi fólgið í öðrum hlutanum í „Aftur til framtíðar“ þríleiknum, með leikarann Michael J. Fox í broddi fylkingar, en myndin spáði þó rétt fyrir um ýmsar tækniframfarir sem samfélagið notast við árið 2015.
Fréttavefmiðillinn Quartz hefur tekið saman skemmtilegan lista yfir þá hluti sem kvikmyndin spáði rétt fyrir um fyrir 26 árum síðan.
Tæknilegir fylgihlutir
Það má vel vera að margir tækniþyrstir bíði með eftirvæntingu eftir Apple úrinu sem væntanlegt er á markað á þessu ári, en ansi tæknilegir fylgihlutir hafa engu að síður verið á markaði í þó nokkurn tíma. Samsung hefur verið leiðandi á þeim markaði að undanförnu með alls kyns tækniúrum, armböndum og heyrnartólum.
Í kvikmyndinni eru nokkrar persónur með smart-úr, og sonur Marty er með einhvers konar snjall-gleraugu á höfðinu sem hann getur notað til að horfa á sjónvarpið eða til að tala í símann. Ekki ósvipuð græja og Google Glass gleraugun, sem komu út árið 2013, en von er á nýrri útgáfu þeirra á þessu ári, sem og sýndarveruleikagleraugu Oculus Rift frá Facebook.
Risastórir flatskjáir og myndbands símtöl
Á McFly heimilinu í öðrum hluta Aftur til framtíðar þríleiksins, má sjá stóra flatskjái, þar sem Marty hinn yngri getur horft á margar sjónvarpsrásir á sama tíma. Það er tækni sem okkur er vel kunn árið 2015. Í dag getum við meira að segja horft á sjónvarpsstöð á sama tíma og við spilum leik í leikjatölvunni.
Skype gerði okkur svo kleyft að taka myndbands símtöl heimshorna á milli, ekki ósvipað því og spáð var fyrir í Aftur til framtíðar II.
Lífkenni (Biometrics)
Það er nokkuð langt síðan fingrafaraskannar ruddu sér til rúms, en fingraför þeirra sem hafa til að mynda farið í ferðalag til Bandaríkjanna nýlega hafa mjög trúlega verið skönnuð við landamæraeftirlitið. Apple kynnti til sögunnar fingrafaraskanna á iPhone 5S árið 2013 og það sama gerði Samsung á Galaxy S5 ári síðar. Þá hleypti Apple af stokkunum Apple Pay, greiðsluþjónustu sem styðst við áðurnefnda fingrafaraskanna.
Í Aftur til framtíðar II borgar Biff fyrir leigubíl með því að þrýsta þumli á þar til gerðan skanna, sem er ekki ósvipað því sem við getum gert í leigubílum í dag sem taka farsímagreiðslur. Munurinn á myndinni og því sem við þurfum að gera í dag, er að greiðslan hjá okkur fer í gegnum tæki, á meðan í myndinni þurfti Biff bara sjálft fingrafarið til að borga.
Þrívídd út um allt
Í kvikmyndinni bregður Marty heldur betur í brún þegar hákarl í þrívídd stekkur út úr bíóauglýsingu og gerir sig líklegan til að gleypa söguhetjuna okkar í einum munnbita. Um var að ræða auglýsingu fyrir nítjándu kvikmyndina um Ókindina, eða „Jaws.“ Enn þann daginn í dag höfum við ekki komið okkur upp viðlíka þrívíddartækni, við erum að vinna í því, en við erum komin með þrívíddar-sjónvör, aragrúa kvikmynda í þrívídd og leikjatölvur sem bjóða upp á tölvuleiki í þrívídd, þar sem meira segja þarf ekki að notast við þrívíddar-gleraugu til að spila.
Þá höfum við því miður ekki heldur fengið að sjá Jaws 5, eða fimmtán fleiri framhaldsmyndir um hákarlinn ógurlega.
Þá má sjá ýmislegt fleira bregða fyrir í Aftur til framtíðar II, sem við könnumst við í dag svo sem dróna, spjaldtölvur og forritaðar ljósastillingar fyrir heimilið. Þó eru enn nokkrir hlutir í kvikmyndinni sem við höfum ekki enn tekið í okkar þágu, svo sem svifbretti en eitt fyrirtæki er nálægt því að þróa slíkt til að setja á markað.
Þá hefur mannkyninu ekki heldur tekist að stunda tímaferðalög, bílarnir okkar eru ekki heldur farnir að fljúga, og fötin okkar laga sig ekki sjálfvirkt að stærð okkar og lögun. Þá komust tvöföld hálsbindi sem betur fer aldrei í tísku, en miðað við bíómynd sem var framleidd á tímum Nintendo Electronics System leikjatölvunnar í árdaga internetsins, var furðulega margt í myndinni sem staðist hefur tímans tönn. Það verður að minnsta kosti áhugavert að fylgjast með því hvort kvikmyndir frá árinu 2015 verði sannspáar um lífið árið 2041.