Þetta gerðist mjög hratt. Tilboð Síldarvinnslunnar í útgerðarfyrirtækið Vísi barst aðeins tveimur vikum áður en gengið var frá sölunni. Stjórnendur Síldarvinnslunnar sáu „uppganginn í okkar landvinnslu,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, „þeir sáu sér leik á borði og nálguðust okkur.“
Tilboðið var „mjög sanngjarnt“ segir hann við Víkurfréttir um þessi rúmlega 30 milljarða króna viðskipti sem vakið hafa upp mikla umræðu um samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir að með kaupunum verði „dansað“ sitt hvorum megin við kvótaþakið en lög segja að tengdir aðilar megi ekki halda á meira en tólf prósent af úthlutuðum kvóta á hverjum tíma.
En hvað hafa stjórnmálamenn sagt um kaupin í fjölmiðlum síðustu daga?
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna
„Ég hef áhyggjur af þessari miklu samþjöppun í sjávarútvegi.“
Og:
„Nú er þetta auðvitað ekki gengið í gegn. Samkeppniseftirlitið er með þetta til skoðunar og Fiskistofa sömuleiðis með það verkefni að meta hvort að þessar aflaheimildir fari yfir kvótaþakið. En það er mín skoðun að það þurfi að endurskoða það regluverk, bæði hvað varðar kvótaþakið og tengda eigendur.“
Og:
„Það þarf að ræða gjaldtökuna, ekki síst þegar við sjáum þennan tilflutning á auðmagni milli aðila.“
Og:
„Þetta er grundvallarástæðan fyrir því að svo margir eru ósáttir við kvótakerfið. Því að á sama tíma og við skilgreinum auðlindir hafsins sem þjóðareign, þá sjáum við samþjöppun í sjávarútvegi og gríðarlegan auð safnast á fárra manna hendur. Þetta er líka til skoðunar hjá matvælaráðherra og varðar gjaldtökuna og líka þegar um er að ræða svona tilfærslu á auðmagni eins og sést í þessu dæmi.“
Og:
„Síðan eðlilega hefur maður áhyggjur af áhrifum á byggðarlögin. Við erum auðvitað með sögu þar sem við höfum oft séð að hagræðing hefur ráðið för en ekki sjónarmið um samfélagslega ábyrgð eða byggðafestu. Þannig að ég hef líka áhyggjur af því.“
Og:
„Aukin samþjöppun eykur ekki sátt um greinina.“
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins
„Í Grindavík er vel rekin, umfangsmikil starfsemi. Það er engin ástæða til að ætla annað en að svo verði áfram.“
Og:
„Það eru margir sem ala á sundrung vegna kerfisins.“
Og:
„Frá því framsalið var gefið frjálst og ef við horfum á sameiningar svona þrjátíu ár aftur í tímann þá hafa þær heilt yfir séð verið til þess fallnar að auka arðsemi veiðanna sem er mikilvægt fyrir þjóðarbúið í heild. Varðandi samþjöppunina þá eru lög og reglur sem gilda og samkeppnissjónarmið sem verður horft til. Nú fer þetta í þann farveg og ég vænti þess að það taki tíma og ég fylgist með eins og aðrir hvað kemur út úr þeirri athugun.“
Og:
Þótt „sársauki hafi fylgt eigendaskiptum áður fyrr þegar ekki var samræmi milli afkastagetu flota og fiskimiða séu aðrir tímar. Nú fer þetta bara í venjulegan farveg samkvæmt þeim athugunum sem um það gilda.“
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins
„Ég myndi segja að þetta hafi nú komið mér svolítið á óvart.“
Og:
„Við höfum séð stöðuga samþjöppun á þessum markaði en við höfum líka séð talsverðan fjölbreytileika. Það er þó þannig að þessi fyrirtæki eru að keppa á stórum markaði úti í heimi og maður skilur alveg að þessi fjölskyldufyrirtæki sem hafa kannski verið í rekstri í fjörutíu, fimmtíu ár séu farin að velta því fyrir sér hvað gerist næst.“
Og:
„Ég held að þetta breyti svolítið þessum hugsunarhætti um að við séum með fjölbreytta útgerð ef við verðum fyrst og fremst með mjög fáa mjög stóra aðila sem allir banka í kvótaþakið að þá hlýtur það að kalla á annars konar gjaldtöku.“
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi
„Og eftir því sem fleiri svona dæmi, eins og við erum að horfa upp á núna eiga sér stað, því meiri gremja kraumar undir.“
„Kvótinn erfist, fer á milli kynslóða og safnast á fárra manna hendur. Þetta verður til þess að samfélagsgerðin okkar þróast í óæskilega átt. Við erum að færa stórútgerðinni sem malar gull auðlindina okkar á silfurfati.“
Og:
„Samþjöppunin undanfarin ár hefur sífellt aukist á meðan kvótakerfið er lokað þ.e. nýliðun í greininni er nánast ómöguleg. Það er bara dagljóst hvert svona þróun leiði: Það er verið að búa til elítu í landinu sem hagnast á auðlindum þjóðarinnar.“
Og:
„Stórútgerðin malar gull, sem væri ágætt ef hún skilaði þá sanngjörnum hlut til þjóðarinnar en veiðigjöldin eru þannig að þau eru til skammar, leyfi ég mér að segja.“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar
„Ég vil meina það að það sé meirihluti á þingi fyrir því að fara í þessar breytingar, til þess að auka gegnsæi, til þess að tryggja réttan hlut þjóðarinnar – til að taka á þessari samþjöppun.“
Og:
„Meðan að VG er búin að binda trúss sitt við skip minnihlutans, sem hefur engar áhyggjur af þessari þróun þá mun ekkert breytast. Samfélagslega ábyrgðin felst í því að ríkisstjórnin, með VG í broddi fylkingar, vill ekki neinar breytingar.“
Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi
„Sporin hræða í raun og veru. Í ljósi þess að það hefur ýmislegt gerst hérna á Suðurnesjum sem hefur orðið þess valdandi að kvótinn hefur horfið af svæðinu – við þekkjum söguna – Keflavík var einu sinni stór útgerðarbær en það er ekki til sporður hér lengur.“
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi
„Nei, ég óttast ekki um störfin [í Grindavík] heldur lítum við þetta bara björtum augum, að svona öflug fyrirtæki séu að veðja á okkur til uppbyggingar.“
Og:
„Það sem að við búum vel við [í Grindavík] er að við erum með mikla þekkingu og öflugt starfsfólk í fiskvinnslunni og í sjávarútvegsmálum. Við erum vel staðsett varðandi útflutningsmarkað og annað slíkt. Þá hefur Vísir fjárfest mikið í landvinnslunni sinni hér og það er erfiðara að flytja hana eitthvert heldur en að sigla togurunum. Þannig að þetta all saman róar mann og gefur manni von um að hér verði frekari uppbygging heldur en annað.“
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og oddviti Samfylkingarinnar í borginni
„Fréttir og viðtöl af kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík er eins og sena úr Verbúðinni. Bókstaflega.“
Og:
„Greining [Þórðar Gunnarssonar í grein á Vísi] á kaupverðinu bendir eindregið til þess að kaupverðið taki EKKI mikið mið af rekstri eða rekstrarárangri Vísis heldur skýrist fyrst og fremst af hlutdeild Vísis í þorskkvótanum - einmitt, kvótanum sem er eða á að heita þjóðareign.“
Og:
„Helstu fyrirtæki landsins í sjávarútvegi eru með öðrum orðum að lýsa því yfir með verðlagningunni að ekkert sé að marka orð og fyrirheit stjórnmálanna um að innheimta eigi eðlilegan arð af auðlindinni þannig að þeir fjármunir renna til þjóðarinnar. Og að engar breytingar á því séu líklegar. Á sama tíma horfum við upp á vanfjármagnað heilbrigðis- og velferðarkerfi án þess að lausnir á því séu í sjónmáli. Er eðlilegt að viðbrögð stjórnmálanna takmarkist við umræðu um kvótaþak og samkeppnissjónarmið? Á þetta bara að vera svona?“