Ummæli Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, um ráðherra og aðstoðarmenn þeirra í Viðtalinu á RÚV á mánudagskvöld hafa vakið nokkra athygli. Þar sagðist hann telja að ráðherrar þurfi reynda ráðgjafa til að vega upp á móti sínu eigin reynsluleysi og það sé meðal annars sá lærdómur sem megi draga af lekamálinu.
„Þarna kemur til starfa fólk sem hefur ekki það sem ég kalla mikla samfélagsreynslu. Það hefur ekki verulega reynslu af þingstörfum, ekki af þessum samskiptum að koma málum í gegnum stjórnsýsluna, það hefur oft á tíðum ekki mikla reynslu úr atvinnulífinu, það hefur kannski fyrst og fremst reynslu úr pólitískum störfum fyrir stjórnmálaflokkana,“ sagði Tryggvi um ráðherra. Hann sagðist telja að búa þurfi ráðherrum betri aðstöðu til að rækja störf sín, reynda aðstoðarmenn sem gætu veitt hlutlausa ráðgjöf í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
Kjarninn ákvað að skoða reynslu þeirra sem gegna störfum aðstoðarmanna ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Þau eru fjórtán talsins. Öll eru með háskólapróf, til dæmis eru fjögur þeirra lögfræðingar og tvö eru búfræðingar. Þá eru sagnfræðingar, stjórnmálafræðingar og viðskiptafræðingar á meðal þeirra. Meirihluti þeirra hafði starfað fyrir flokk viðkomandi ráðherra áður en þau voru ráðin í störf aðstoðarmanna. Minnst fimm hafa setið í stjórnum ungliðahreyfinga og nokkur voru kosningastjórar flokkanna áður en þau urðu aðstoðarmenn.
Aðstoðarmenn forsætisráðherra
Ásmundur Einar Daðason er fæddur árið 1982 og er 32 ára. Hann er búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og með BS-próf í
almennum búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann var sauðfjárbóndi til ársins 2011 og rak innflutnings- og sölufyrirtæki með landbúnaðarvörur, en hann hefur einnig starfað sem þingmaður frá 2009. Hann tók við starfi aðstoðarmanns meðfram þingstörfum í nóvember 2013.
Jóhannes Þór Skúlason er fæddur árið 1973 og er 42 ára. Hann er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og starfaði sem grunnskólakennari í Seljaskóla þar til hann tók við starfi aðstoðarmanns formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, árið 2011. Hann var líka um margra ára skeið þjálfari MORFÍS-liða í hjáverkum. Þegar Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra í maí 2013 tók Jóhannes við starfi aðstoðarmanns forsætisráðherra. Hann hafði ekki starfað í Framsóknarflokknum fyrir þennan tíma en var mjög virkur í starfi InDefence-hópsins.
Aðstoðarmenn fjármálaráðherra
Svanhildur Hólm Valsdóttir er fædd árið 1974 og er 40 ára gömul. Hún er menntaður lögfræðingur og lauk prófi frá Háskóla Íslands árið 2009. Hún starfaði í fjölmiðlum frá 1995 til 2009, sem blaðamaður, útvarpsmaður og síðast í sjónvarpi, bæði á RÚV og Stöð 2. Hún var ráðin framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins haustið 2009 og svo aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar haustið 2012. Hún fylgdi Bjarna svo í fjármálaráðuneytið þegar hann varð ráðherra vorið 2013. Hún hafði sinnt félagsstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og var í stjórn og svo annar varaformaður SUS árin 1997 til 2001.
Teitur Björn Einarsson er fæddur árið 1980 og er 34 ára. Hann er lögmaður, útskrifaðist frá Háskóla Íslands 2006 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 2007. Hann starfaði hjá LOGOS lögmannsstofu eftir útskrift, var í framkvæmdastjórn og stjórn Eyrarodda 2007 til 2011 og svo lögmaður hjá OPUS lögmönnum frá 2011 og þar til hann var ráðinn í fjármálaráðuneytið sumarið 2014. Teitur hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, var varaformaður SUS og hefur setið í ráðum og nefndum flokksins. Hann hefur einnig boðið sig fram í prófkjöri fyrir Alþingiskosningar.
Aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ingvar Pétur Guðbjörnsson er fæddur árið 1979 og er 35 ára gamall. Hann er búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Hann hefur einnig lagt stund á stjórnmálafræði og sagnfræði í Háskóla Íslands. Áður en hann varð aðstoðarmaður Ragnheiðar Elínar Árnadóttur árið 2013 starfaði hann sem blaðamaður á Morgunblaðinu í átján mánuði. Áður starfaði hann hjá Landsvirkjun, við almannatengsl og kynningarmál, og við skrifstofustörf hjá Sláturhúsinu á Hellu. Hann sat í sveitarstjórn Rangárþings ytra 2002 til 2010 og aftur frá 2011 til 2012. Hann hefur verið mjög virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins, meðal annars í stjórn SUS og í fulltrúa- og kjördæmisráðum.
Aðstoðarmaður félags- og húsnæðismálaráðherra
Matthías Páll Imsland er fæddur árið 1974 og er 41 árs gamall. Hann lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og er með MS-próf frá Háskólanum í Lundi. Hann hefur einnig stundað nám í viðskiptafræði við HÍ og stjórnunarnám við North Park University í Chicago. Matthías hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn í gegnum tíðina. Meðal annars hefur hann verið í miðstjórn og landsstjórn flokksins. Hann starfaði sem rekstrarstjóri þjónustudeildar Símans eftir nám og hefur starfað sem sviðsstjóri fræðslu-, félags- og menningarsviðs á Blönduósi og í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Hann var forstjóri Iceland Express til ársins 2011 og svo framkvæmdastjóri rekstrarsviðs WOW-air til 2012. Hann vann sem ráðgjafi eftir það og var svo kosningastjóri Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir síðustu Alþingiskosningar. Síðan þá hefur hann verið aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur.
Aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra
Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir er fædd árið 1981 og er 33 ára gömul. Hún er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, sem hún lauk árið 2012. Hún starfaði á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Valhöll frá árinu 2007 til haustsins 2012, þegar hún tók við starfi framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hún var svo ráðin aðstoðarmaður Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra í júní 2013.
Aðstoðarmenn innanríkisráðherra
Kristín Haraldsdóttir er fædd árið 1970 og er 44 ára. Hún er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og er með LLM-gráðu í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi. Hún hefur starfað sem fulltrúi á lögmannstofu, var lögfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu í sex ár og síðar lögfræðilegur aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn í Lúxemborg. Hún hefur verið sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík frá 2009 og forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar lagadeildarinnar. Hún hefur einnig setið í stjórnum fyrirtækja og nefndum á vegum ríkisins. Hún var ráðin lögfræðilegur aðstoðarmaður Ólafar Nordal í desember síðastliðnum.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er fædd árið 1987 og er 27 ára. Hún lauk ML námi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2012 og var framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna frá vori 2013 og þar til hún var ráðin aðstoðarmaður Ólafar Nordal innanríkisráðherra rétt fyrir jól. Hún hefur starfað hjá embætti sýslumanns á Akranesi, hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og hjá Marel. Hún var kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu þingkosningar. Hún hefur verið virk í störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, verið formaður félags ungra sjálfstæðismanna á Akranesi og setið í stjórn SUS.
Aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra
Sigríður Hallgrímsdóttir er fædd árið 1971 og er 44 ára. Hún er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Áður en hún tók við starfi aðstoðarmanns Illuga Gunnarssonar var hún ráðgjafi hjá almannatengslafyrirtækinu KOM. Hún hefur meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri hjá Sjá, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Creditinfo Group og hjá Industria. Hún hefur einnig setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja. Hún hefur einnig setið í stjórnum félagasamtaka og verið virk í störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún er formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík.
Aðstoðarmenn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Helga Sigurrós Valgeirsdóttir er fædd 1979 og er 35 ára gömul. Hún er með BS-gráðu í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri og meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Geronble Graduate School of Business. Hún starfaði á Fiskistofu frá árinu 2004 með hléum, síðast sem sviðsstjóri upplýsingasviðs Fiskistofu, þar til hún var ráðin aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar sumarið 2013. Hún var starfsmaður sáttanefndarinnar um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, sat í verkefnisstjórn um mótun atvinnustefnu fyrir Ísland og hefur tekið þátt í ýmsu samstarfi í sjávarútvegsmálum á alþjóðavettvangi.
Benedikt Sigurðsson er fæddur árið 1964 og er 50 ára gamall. Hann er með BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann var ráðinn aðstoðarmaður Sigurðar Inga í ágúst 2013 en var fyrir það sviðsstjóri samskipta hjá Actavis á Íslandi. Hann var aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar frá 2009 til 2011 og 2006 til 2008 var hann fjölmiðlafulltrúi hjá Kaupþingi. Tólf ár þar á undan vann hann sem fréttamaður.
Aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra
Ingveldur Sæmundsdóttir er aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra. Hún er fædd árið 1970 og er 44 ára gömul. Hún er með BS-próf frá CBS, viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn, og diplómu í alþjóðlegri markaðshagfræði frá Business Academy Copenhagen North. Hún hefur líka stundað nám í stjórnun og stefnumótun í Háskóla Íslands. Hún starfaði sem verslunarstjóri og síðar vörustjóri hjá Pennanum, og sem vörustjóri hjá Hátækni. Hún var svo kosningastjóri Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir síðustu þingkosningar og var svo ráðin aðstoðarmaður þegar ríkisstjórnin var mynduð.
Aðstoðarmaður utanríkisráðherra
Sunna Gunnars Marteinsdóttir er fædd árið 1984 og er 30 ára gömul. Hún er með BA-gráðu í almannatengslum frá Háskólanum í Westminster, og hefur stundað nám í hagnýtri menningarmiðlun í Háskóla Íslands. Áður en hún varð aðstoðarmaður Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í september 2013 var hún skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins frá árinu 2010, og var aðstoðarmaður kosningastjóra flokksins árið 2009. Hún var líka til skamms tíma aðstoðarmaður formanns Framsóknarflokksins. Hún hefur gegnt ýmsum félagsstörfum, og setið í nefndum á vegum Framsóknarflokksins.