Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tilkynnti á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins, sem haldið var á Hallormsstað um helgina, að beinagrind steypireyðar sem rak á land á Skaga árið 2010 verði flutt til tímabundinnar varðveislu hjá Hvalasafninu á Húsavík. Hvalrekinn heyrir ekki undir málaflokk forsætisráðuneytisins, en Hvalasafnið á Húsavík er í kjördæmi forsætisráðherra.
Einar Gíslason, framkvæmdastjóri Hvalasafnsins, heyrði af ákvörðun forsætisráðherra í fjölmiðlum. Hvalasafnið hefur frá árinu 2010 ítrekað sent erindi til ráðneyta mennta- og umhverfismála þess efnis að það fái beinagrind Steypireyðarinnar til varðveislu. Þeim erindum hefur ekki verið svarað af hálfu stjórnvalda.
Í samtali við Kjarnann segir Einar, að enn hafi engin formleg tilkynning eða staðfesting borist Hvalasafninu frá stjórnvöldum, um að beinagrind steypireyðarinnar sé á leið til Húsavíkur. Hann á von á því að erindum safnsins frá árinu 2010, verði nú formlega svarað og ákvörðun forsætisráðherra um leið staðfest.
Samkvæmt ríkisstjórnarsamþykkt frá því í ágúst 2010 er það á forræði menntamálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis að ákveða, í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafns Íslands, hvar beinagrindin skuli varðveitt. Í frétt RÚV í gær, kom fram að hvorki hafi verið haft samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands né Náttúrugripasafn Íslands varðandi ákvörðunina að senda beinagrindina Hvalasafninu á Húsavík til varðveislu.
Til þess að koma beinagrindinni fyrir, hyggst Hvalasafnið reisa nýja 500 fermetra viðbyggingu með tíu metra lofthæð, en steypireyðurin er hugsuð sem krúnudjásn safnsins. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er um 250 milljónir króna. Aðspurður um hvort ákvörðunin um að Hvalasafninu verði afhend beinagrindin tímabundið hafi áhrif á fyrirætlanir safnsins, segir Einar Gíslason svo ekki vera. "Við höfum ekkert heyrt frá stjórnvöldum vegna málsins og því vitum við ekkert hvaða skilmálar koma til með að fylgja beinagrindinni, en ef það er svo að við fáum hana bara tímabundið til varðveislu, þá munum við fara fram á að fá afsteypu af beinagrindinni áður en við skilum henni aftur, sem þá yrði til sýnis í nýja sýningarsalnum," segir Einar í samtali við Kjarnann. Stefnt er að því að opna bráðabirgðasýningu á beinagrindinni næsta sumar.