Æsileg leit stendur yfir hjá bresku slúðurpressunni og álitsgjöfum af hægri væng breskra stjórnmála að "Ed Stone", risavaxinni steintöflu sem Ed Miliband lét höggva í sex helstu kosningaloforð Verkamannaflokksins og var opinberuð örfáum dögum fyrir þingkosningarnar í síðustu viku. Á meðal þess sem boðið hefur verið í verðlaun fyrir upplýsingar um hvar taflan er niðurkomin er kassi af kampavíni.
2,5 metrar á hæð og tvö tonn á þyngd
Ed Miliband, verðandi fyrrum formaður Verkamannaflokksins, lét meitla kosningaloforð flokks síns í steintöflu á lokaspretti kosningabaráttunnar fyrir bresku þingkosningarnar, sem fram fóru síðastliðinn fimmtudag. Fyrir viku afhjúpaði hann steintöfluna, sem er um 2,5 metra há og tvö tonn á þyngd, og sagði að hann hann ætlaði að koma henni fyrir í farði ráðherrabústaðarins við Downingstræti ef flokkurin hans ynni sigur í kosningunum. Þannig yrði hún stöðug áminning um að ekki mætti svíkja kjósendur flokksins. Fréttir herma að gerð steintöflunnar hafi kostað allt að 30 þúsund pund, rúmar sex milljónir króna.
Steintaflan vakti mikla athygli, og kátinu, á samfélagsmiðlum. Samstundis fór að bera á gagnrýni og háði vegna þess að taflan þótti minna á Móses og boðorðin tíu. Athæfið þótti auk þess gamaldags og mikið var fjallað um það á Twitter undir merkinu #EdStone.
Ed just relaxing at home with his new kitchen table. pic.twitter.com/QzSsyM2FCb
Auglýsing
— Stansaid Airport (@StansaidAirport) May 8, 2015
Sérstök símalína og kassi af kampavíni
Verkamannaflokkurinn beið síðan afhroð í kosningunum, sérstaklega vegna stórtaps í Skotlandi þar sem flokkurinn fékk einungis eitt þingsæti af 59. Ed Miliband sagði af sér formennsku í kjölfar ósigursins sem varð enn bitrari í ljósi þess að Íhaldsflokkurinn, helsti pólitíski andstæðingur flokksins, vann hreinan meirihluta.
En steintaflan er hins vegar ekki gleymd og nú vilja bæði breska slúðurpressan og álitsgjafar af hægri væng stjórnmálanna endilega komast yfir hana. Taflan virðist hins vegar horfin af yfirborði jarðar og talsmenn Verkamannaflokksins hafa ekkert viljað gefa upp um hvar hún sé geymd.
Samkvæmt frétt The Guardian hefur slúðurblaðið The Mail boðið hverjum þeim sem geti veitt upplýsingar sem leiði til þess að „Ed Stone“ finnist kassa af kampavíni. The Sun hefur sett upp sérstaka símalínu fyrir ábendingar um hvar steintaflan sé niðurkomin. The Telegraph og The Mail on Sunday lögðust í rannsóknarvinnu og höfðu sambandi við yfir 50 múrarafyrirtæki víðsvegar um Bretland til að komast að því hvort þau hafi gert töfluna og viti hvar hún sé, en án árangurs.