„Hvar er heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins eiginlega?“ spurði Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Hún svaraði sjálf og sagði: „Það er bókstaflega ekkert að frétta. Eða jú, það er helst að frétta að það er ekkert verið að gera til að bæta það ófremdarástand sem ríkt hefur í heilbrigðiskerfinu síðastliðin ár þrátt fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem sífellt hleypur hraðar og hraðar.“
Bráðahjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans, Soffía Steingrímsdóttir, skrifaði stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi sem vakið hefur mikla athygli en þar greinir hún frá ákvörðun sinni að segja upp störfum vegna langvarandi álags og lélegs aðbúnaðar á deildinni.
Helga Vala sagði í ræðu sinni að það sem helst væri að frétta varðandi heilbrigðismál væri að nú ætlaði ríkisstjórnin að einkavæða þjónustu við eldra fólk sem dvalið hefur á Vífilsstöðum í stað þess að fara í alvöruheildaruppbyggingu á mjög svo brothættu heilbrigðiskerfi. Uppbyggingu sem tæki tillit til eftirspurnar eftir nauðsynlegri þjónustu, dreifingu þjónustu um landið, yfirsýnar yfir mannafla, húsnæði og fjármuni.
„Eða jú, það er helst að frétta að það er búið að segja upp öllum hjúkrunarfræðingum sem sinnt hafa símsvörun Læknavaktarinnar, símsvörun sem hefur í raun verið bjargráð heilbrigðisþjónustu hringinn í kringum landið, símsvörun þar sem notendur heilbrigðisþjónustu og starfsfólk hefur getað leitað ráða hjá færum sérfræðingum með margs konar og yfirgripsmikla þekkingu,“ sagði hún.
Fólkið í stúkunni farið að hvísla sín á milli að kominn sé tími á þjálfaraskipti
Helga Vala vildi nota líkingamál sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra myndi skilja, en hann var á árum áður þjálfari í fótbolta, og benda á að það væri langt liðið á fyrri hálfleik hjá honum og út úr liðinu streymdu lykilleikmenn sem haldið hafa liðinu á floti.
„Fólkið í stúkunni er farið að hvísla sín á milli að kominn sé tími á þjálfaraskipti, enda þolinmæðin lítil eftir slakt gengi á síðasta kjörtímabili. Það var ekki bara einn starfsmaður sem sagði upp á Landspítalanum í gær, það var lykilstarfsmaður á bráðamóttöku í Fossvogi sem sagði upp vegna langvarandi álags og engrar lausnar í sjónmáli. Fleiri lykilstarfsmenn hyggja á brottför af því að fólk fer heim af vaktinni með nagandi samviskubit og eftirsjá í boði ríkisstjórnarinnar. Nei, þaðan er ekkert að frétta,“ sagði hún að lokum.