Stjórnmálafræðingar eru ofnotaðir af fjölmiðlum til að túlka pólitíska stöðu hverju sinni, þó hún blasi oftar en ekki við þeim sem hafa aðeins fylgst með íslenskum stjórnmálum í gegnum tíðina.
Óvænt framboð Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur til formanns hjá Samfylkingunni var að sjálfsögðu tilefni ónefnds fjölmiðils til að hóa í ónefndan lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, til að fá hana til að spá í spilin fyrir slag Sigríðar og Árna Páls Árnasonar sitjandi formanns Samfylkingarinnar.
Þegar hún var beðin um að spá í spilin sagði hún: „Ef það er þannig að það eru landsfundarfulltrúar sem velja formanninn að þá ræðst það af samsetningu fundargesta. En sú samsetning þarf ekki að endurspegla til dæmis vilja almennings sem ekki er í Samfylkingunni eða skoðanir almennra flokksmanna í Samfylkingunni. Árni er sitjandi formaður og hann hefur það með sér en líka á móti. Hann á sjálfsagt sterka stuðningsmenn. Sigríður Ingibjörg er þingmaður Reykvíkinga og hefur notið vinsælda í flokknum í Reykjavík.“ Einmitt.
Aðspurð um hvort Sigríður Ingibjörg ætti meiri möguleika að ná kjöri vegna slæmrar stöðu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum, svaraði stjórnmálafræðingurinn: „Það veldur ábyggilega skjálfta í röðum flokksmanna. En svo er ómögulegt að spá fyrir um það hvort Sigríði Ingibjörgu geti tekist betur upp en Árna Páli að endurvekja traust á Samfylkingunni." Bingó!
Pæling dagsins: Hvar værum við eiginlega án stjórnmálafræðinga?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.