Það verður að segjast alveg eins og er að Reykjavíkurborg kemur ekkert sérstaklega vel undan vetri. Gult gras blasir við nánast hvert sem litið er, og sumar gangstéttar minna helst á strandlengjur eftir gengdarlausan sandburð í vetur. Vegna þessa eru sumar gangstéttar illfærar barnavögnum og öðrum smærri fararskjótum, þó snjórinn sé löngu löngu farinn. Þó blessað dagatalið fulllyrði að sumarið sé gengið í garð, er hvorki umhverfið né hitamælirinn til vitnisburðar um þá fullyrðingu.
Þá er líka víða drasl á götum, í beðum, görðum og á umferðareyjum svo fátt eitt sé nefnt, og göturnar í borginni minna helst á vegakerfi þriðja heims ríkis, svo illa eru þær farnar eftir veturinn og trúlega langvarandi vanrækslu á viðhaldi. Þá hefur bágborið ástand gatna í Reykjavík nú þegar valdið fjölda bifreiðaeigenda fjártjóni, eftir að bílar þeirra hafa skemmst eftir að keyra eftir holóttum götum borgarinnar. Ekki verður auðséð hvernig undið verður ofan af þessu ástandi.
Þeim sem þetta skrifar finnst borgin eiginlega bara subbuleg um þessar mundir og ekki til mikils sóma. Hvenær ætla borgaryfirvöld að fara að taka til hendinni? Eftir hverju er verið að bíða?Vonandi ekki eftir góða veðrinu, því það er bara alls ekkert víst að það komi.