Bæjarstjórnin í Hveragerðisbæ setti fram nokkuð hvassa gagnrýni á hugmyndir Elliða Vignissonar, sveitarstjóra í nágrannasveitarfélaginu Ölfusi, um mögulega orkunýtingu í Reykjadal, í bókun á bæjarstjórnarfundi á fimmtudag.
Elliði ræddi um mögulega orkuvinnslu á svæðinu, sem er innan sveitarfélagamarka Ölfuss að mestum hluta, í samtali við mbl.is undir lok októbermánaðar. Þar sagði Elliði að svæðið í kringum Reykjadalinn væri mjög ríkt af orku og að Ölfusingar vildu „sjá fram á orkunýtingu á svæðinu“ áður en farið yrði í friðlýsingar svæðisins, sem er á náttúruminjaskrá.
„Við höfum lýst vilja til þess að fara í tiltölulega þrönga friðlýsingu á Reykjadalnum. Að skoða það að friðlýsa frá toppum fjallana niður í botn dalsins. Við höfum ekki viljað taka stærri skref fyrr en búið er að sjá út úr hvernig eigi að nýta orkuna á svæðinu í kringum Hengilinn og Ölkelduháls og víðar,“ sagði Elliði við mbl.is.
Náttúran verði látin njóta vafans
Bæjarstjórnin í Hveragerði er óhress með þessi ummæli og segir að allar rannsóknir hafi sýnt fram á að áhrif vegna hugsanlegrar orkunýtingar á svæðinu hefðu veruleg áhrif á Hveragerði.
„Bæjarstjórn telur afar óábyrgt af sveitarstjóra Ölfuss að tala um að skoða eigi orkunýtingu á svæðinu þar sem mikil óvissa ríkir um áhrif á loft, vatnslindir og náttúru og hvetur til að náttúran verði látin njóta vafans,“ segir í bókun Hvergerðinga.
Þar segir einnig að Reykjadalurinn og svæðið í kring hafi síðustu ár verið í friðlýsingarferli, sem „því miður“ hafi verið stöðvað af Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir um ári síðan.
„Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur ætíð verið á móti orkunýtingu á svæðinu eða allt frá því að hugmyndir um Bitruvirkjun voru uppi á borðinu,“ segir í bókun bæjarstjórnar, sem telur ljóst að allar framkvæmdir á svæðinu myndu draga úr gildi þess sem útivistarsvæðis fyrir þá sem vilji njóta óspilltrar náttúru.
„Svæðið, sem er á náttúruminjaskrá, er einn vinsælasti áfangastaður erlendra sem innlendra ferðamanna og hafa vinsældir þess aukist stöðugt undanfarin ár,“ segir í bókun bæjarstjórnarinnar í Hveragerðisbæ.