Það er eiginlega orðið bara svolítið furðulegt og súrrelaíst að fylgjast með íslenska karlalandsliðinu í fótbolta. Maður á nefnilega ekki að venjast því að liðið sigri svo marga leiki eins og raun ber vitni, og nú er það nánast búið að tryggja sig á lokamót í fótbolta í fyrsta skipti í sögunni eftir frábæran sigur á sterku liði Tékka. Í leik, sem verður að segjast, flestir einhvern veginn áttu von á að liðið myndi sigra, svo mikil er tiltrúin orðin á liðinu.
Í partýinu fyrir hrun reis hvert knattspyrnuhúsið á fætur öðru, svo hægt væri að stunda fótbolta á þessu skeri veðurs og vinda allt árið um kring. Á síðastliðnum áratug eða svo hafa Íslendingar byggt upp ótrúlega metnaðarfulla knattspyrnuaðstöðu, en um aldarmótin fóru flestar vetraræfingar fram á örfáum gervigrasvöllum sem voru á landinu, malarvöllum og í einstaka reiðhöllum. Í dag eru tíu knattspyrnuhallir, yfir 20 gervigrasvellir og 130 sparkvellir víðsvegar um landið. Samhliða hefur orðið bylting í menntun þjálfara.
Það hefur skilað sér í því að landslið Íslands í karla- og kvennaflokki, hafa tekið stórstígum framförum á undanförnum árum. Áður fyrr mæti fólk á landsleiki fyrst og síðast fyrir stemmninguna, ótrúlegt en satt, en núna mætir fólk í úlpu á Laugardalsvöllinn í júní því það er líklegra en ekki að landsliðin okkar fari með sigur úr býtum.
Ísland getur nánast gulltryggt sig á lokamót EM 2016 með góðum úrslitum á móti Hollendingum í Amsterdam í næsta leik. Nú er bara pælingin hvernig ráðamenn Íslands munu reyna að hossa sér á árangri íslenska liðsins ef það kemst á Evrópumeistaramótið. Því þeir munu reyna að gera það. Flestum er enn í fersku minni þegar stjórnmálamenn hristu limi sína upp á sviði með Óla Stef og félögum í íslenska karlalandsliðinu í handbolta eftir silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Að ógleymdri Bermúda-skál Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, eftir afrek íslenska landsliðsins í bridds. Stjórnarflokkarnir, sem mega muna sinn fífil fegurri, munu klárlega nýta sér tækifærið til að troða sér á myndir með landsliðsmönnunum.
Eitt er þó víst, að forysta KSÍ, sem studdi með ráðum og dáðum hinn umdeilda Sepp Blatter, sem nú er grunaður um að vera einn spilltasti maður á jörðinni, mun vafalítið reyna að nota árangur íslenska karlalandsliðsins til að hressa upp á ímynd sína. Það er klárlega hægt að tippa á það.