Í gær kom í ljós að tvö seinni húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, klárast ekki fyrir páska. Þau fara því ekki inn í ríkisstjórn fyrr en eftir páska, sem þýðir að fari þau inn í þingið þá verður það með afbrigðum, þar sem fresturinn til að leggja fram frumvörp rann út á miðnætti.
Eins og rætt var í pælingu gærdagsins hefur þessara frumvarpa verið beðið með talsverðri eftirvæntingu. Það stafar ekki síst af því að það er langt síðan komu þeirra var lofað. Unnið hefur verið að þeim í allan vetur í velferðarráðuneytinu, en á endanum urðu þau í hópi fjöldamargra annarra tillagna stjórnvalda sem ekki komu fram fyrir frest Alþingis.
Nú berast fréttir af því að sjálfstæðismönnum þyki frumvörpin of kostnaðarsöm. Eygló viðurkenndi í gær að um verulegar fjárhæðir væri að ræða, fleiri milljarða.
Og þá hlýtur spurningin að vakna: hvers vegna í ósköpunum er þetta fyrst að koma í ljós núna? Af hverju var ekki orðið löngu ljóst, að minnsta kosti í grófum dráttum, hver kostnaðurinn yrði? Hverju og hverjum er um að kenna að málið er í svona klúðurslegum farvegi? Er þarna komið enn eitt dæmið um sambandsörðugleika milli stjórnarflokkanna?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.