„Heilbrigðistúrismi hefur verið að ryðja sér til rúms í íslensku samfélagi og því miður er það þannig að við erum í vaxandi mæli að flytja fólk úr landi í aðgerðir erlendis með tilheyrandi óþægindum fyrir viðkomandi og með óþarfa kostnaði fyrir íslenskt samfélag.“
Þannig hóf Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar ræðu sína undir liðnum störf þingsins á Alþingi í liðinni viku.
Hún sagði að samkvæmt viðmiðunarmörkum landlæknis ættu 80 prósent að komast í aðgerðir innan 30 daga frá greiningu. „Ég er hrædd um að þetta hljómi eins og lélegt grín í eyrum þeirra fjölmörgu sem hafa setið föst á biðlistum mánuðum og jafnvel árum saman eftir tilteknum úrræðum.“
Mótstaða ríkisstjórnarinnar ekki til komin vegna þess að þekkingu skorti
Hanna Katrín sagði jafnframt að ein sérkennilegasta birtingarmyndin af þessari stöðu væri „svo þessi heilbrigðistúrismi“ þar sem fjöldi fólks væri fluttur út í aðgerðir þegar biðin er orðin of löng hér heima.
„Þessi útflutningur á sér stað í vaxandi mæli í liðskiptaaðgerðum, í efnaskiptaaðgerðum, svokölluðum offituaðgerðum og svo aðgerðum vegna endómetríósu, þó svo að hér á landi séu sérfræðingar sem geta sinnt þessari þjónustu allri.
Mótstaða ríkisstjórnarinnar er ekki til komin vegna þess að það skorti þekkingu, færni eða aðstoð sem þessir aðilar geta boðið. Mótstaða ríkisstjórnarinnar er heldur ekki til komin vegna þess að það sé ódýrara að flytja fólk í aðgerðir til útlanda. Nei, vaxandi útflutningur á fólki í aðgerðir erlendis, sem í þokkabót eru mun dýrari lausnir en þær sem eru í boði hér heima, er vegna þess að ríkisstjórnin vill ekki semja við íslenska einkaaðila og einhverra hluta vegna er sú mótstaða ekki fyrir hendi þegar verið er að fela erlendum einkaaðilum þessar aðgerðir,“ sagði hún.
Hanna Katrín spurði hvernig stæði á „þessari vitleysu“.
„Það er auðvitað svo að það þarf að líta á heilbrigðiskerfið okkar í heild þegar tekin er ákvörðun um hver sinnir hverju. En er í alvöru til of mikils ætlast að stjórnvöld ráði við það verkefni án þess að það bitni á heilsu og líðan fólks og að ég tali nú ekki um þá fráleitu sóun fjármuna sem hér er í gangi? Eigum við ekki í alvöru að fara að gera betur?“ spurði hún að lokum.