Jæja, KSÍ gerði það aftur. Enn eitt miðasöluklúðrið kom upp í gær, þegar miðar á leik Íslands og Kasakstan í undankeppni EM fóru „fyrir mistök“ í sölu á vefsíðunni Miði.is. Fyrirtækið sem sérhæfir sig í að selja miða á hverslags viðburði, setti miðasöluna „óvart“ í gang, en áður en mistökin uppgötvuðust höfðu 85 heppnir einstaklingar nælt sér í miða á leikinn.
Mörgum er enn ferskt í minni þegar KSÍ tók þá óskiljanlegu ákvörðun að setja miða á umspilsleik Íslands og Króatíu í sölu klukkan fjögur að nóttu, en fyrir ákvörðuninni lágu „fyrst og fremst kerfislegar ástæður,“ eins og framkvæmdastjóri knattspyrnusambandsins lét hafa eftir sér í fjölmiðlum aðspurður um atvikið sem olli töluverðri reiði á meðal stuðningsmanna landsliðsins. Svo mjög að miðasalan varð að viðtali í Kastljósinu.
Þegar líður að mikilvægum landsleik á Laugardalsvelli þá getur maður nánast bókað að það verði eitthvað vesen varðandi miðasöluna. Miðasölukerfi springa, allir brjálaðir, fáir miðar í sölu o.s.frv.
Hversu flókið er að selja miða á viðburð án þess að klúðra því? Eigum við ekki að reikna með því að KSÍ læri á endanum hvernig eigi að selja miða á landsleiki án þess að það sé eitthvað vesen? Að minnsta kosti má gera ráð fyrir því að eftirspurn eftir miðum á leiki karlalandsliðsins sé komin til að vera, sérstaklega á meðan það heldur áfram að vinna flesta sína leiki.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.