Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, spyr að því á Facebook síðu sinni, hversu lengi „vinstri hrægammarnir“ ætla að eltast við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformann Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi innanríkisráðherra. Hanna Birna sagði af sér sem ráðherra, vegna afskipta sem hún hafði af rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á leka á upplýsingum úr ráðuneyti hennar, en lekamálið svonefnda á rætur sínar í þeim leka.
Vigdís segir á Facebook síðu sinni, að hún hafi mótmælt því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætti að halda áfram með lekamálið svokallaða. „Ögmundur Jónasson formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar boðaði á fundi nefndarinnar í morgun að halda ætti áfram með málefni Hönnu Birnu Ég mótmælti því sem nefndarmaður á þessum grunni 1. Hanna Birna hefur borið pólistíska ábyrgð og sagt af sér sem ráðherra 2. Umboðsmaður Alþingis hefur lokið málinu fyrir hönd þingsins 3. Dómsmál hefur fallið þar sem aðstoðarmaður var dæmdur Hversu lengi ætla „vinstri hrægammanir“ að eltast við Hönnu Birnu - hvenær er nóg, nóg? Hvers vegna snýr nefndin sér ekki að Víglundarmálinu og Sparisjóðaskýrslunni?,“ spyr Vigdís á Facebook-síðu sinni.