Tölur sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku um fjölda þeirra Íslendinga á aldrinum 20-29 ára sem enn búa í foreldrahúsum vöktu töluverða athygli. Samkvæmt þeim kom í ljós að tæplega fjórir af hverjum tíu landsmönnum á þessu aldursbili býr enn heima hjá foreldrum sínum.
Sérfræðingar leiddu líkur að því að fjölgun á meðal þeirra sem sækja sér háskólamenntun gæti spilað þarna stóra rullu, enda erfitt að greiða húsnæðiskostnað samhliða því að draga fram lifstóruna á íslenskum námslánum. Ugglaust spilar líka inn í stöðuna að íslenskur leigumarkaður hefur orðið mun dýrari á undanförnum árum og nánast ómögulegt er fyrir ungt fólk að kaupa sér fasteign eftir þær hækkanir á húsnæðisverði sem dunið hafa yfir á undanförnum árum nema með veglegri meðgjöf frá foreldrum.
Í Danmörku er hlutfall landsmanna á þrítugsaldri sem búa heima hins vegar tíu prósent. Þar eru stúdentaíbúðir mun ódýrari í leigu, námsmenn geta fengið framfærslustyrk á meðan þeir eru í námi og húsnæðiskerfið er þannig uppbyggt að mögulegt er fyrir ungt fólk að komast inn á eignarmarkað.
Á Íslandi hefur ítrekað verið lofað að taka á þeim vanda sem er að hlaðast upp á húsnæðismarkaði, sérstaklega á meðal ungs fólks og tekjulágra, og meðal annars verið rætt um að horfa til Dana í þeim efnum. Skipaðar hafa verið verkefnastjórnir sem hafa skilað tillögum og vilyrði hafa verið gefin fyrir stórkostlegum umbótum. Nú síðast var tilkynnt um að frumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á húsnæðiskerfi landsins yrðu hluti af sátt á vinnumarkaði. Þegar þingi var slitið í síðustu viku kom í ljós að ekkert frumvarpa hennar hafði komist úr nefnd og því þarf að leggja þau öll aftur fram í haust.
Á meðan fjölgar þeim fullorðnu, og oft á tíðum vel menntuðu, Íslendingum sem heima hjá mömmu og pabba vegna þess að þeir geta ekkert annað.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.