Heimsókn Francois Hollande, forseta Frakklands, hingað til lands í tengslum við Arctic Circle ráðstefnuna í Hörpu, dregur athyglina að umhverfisverndarmálum, enda Loftslagsráðstefnan í París á næsta leyti. Hollande hefur ferða vítt og breitt um heiminn til að tala fyrir mikilvægi ráðstefnunnar, en vonir standa til þess að afgerandi ákvarðanir verði teknar í París til að sporna við alvarlegum afleiðingum loftslagsbreytinga af mannavöldum.
Eitt af því sem forvitnilegt verður að sjá, er hvernig Ísland ætlar að ná háleitum markmiðum sínum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir árið 2030, eins og stefnt er að. Það eru ekki allir sem átta sig á því, hversu gríðarlega umfangsmikið verkefni það er, að draga svona mikið úr losun. Það er lítill tími til stefnu í reynd, fimmtán ár. Umfangsmikil lífstílsbreyting þjóðarinnar er líklega það eina sem dugar til. En stjórnmálamenn verða að útbúa áætlun, plan, um hvernig markmiðin eiga að geta náðst.