Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hann sé ekki á leiðinni í forsetaframboð. Engin hafi nefnt slíkt við hann. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ekkert slíkt á dagskrá hjá sér, en þeir eru báðir á meðal þeirra sem orðaðir hafa verið við embættið eftir næstu forsetakosningar sem fram fara á næsta ári. Þetta kom fram í þættinum Eyjunni á Stöð 2 í dag, en Þorsteinn og Össur voru á meðal gesta þáttarins.
Jón Gnarr, sem hefur þráfaldlega verið orðaður við forsetaframboð og notið mikils stuðnings til þess, tilkynnti í gær að hann muni ekki bjóða sig fram. Hann vilji ekki gera fjölskyldunni sinni það að þurfa að eiga við íslenska stjórnmálaumræðu.
Ólafur Ragnar Grímsson, sem hefur verið forseti í 19 ár, ætlaði að hætta fyrir síðustu forsetakosningar en snérist hugur eftir að skorað var á hann. Ólafur Ragnar taldi auk þess að staða mál hérlendis kallaði á að hann myndi sitja áfram en bað fólk að virða það við sig ef hann myndi hætta áður en kjörtímabilinu myndi ljúka. Nú er ljóst að Ólafur Ragnar situr út kjörtímabilið hið minnsta. Hann hefur enn ekki gefið út hvort hann gefi kost á sér árið 2016.
Össur Skarphéðinsson sagði í Eyjunni í dag að atburðir síðustu daga gætu sett Evrópumálin aftur í brennidepil og það gæti orðið til þess að skorað yrði aftur á Ólaf Ragnar um að halda áfram eitt kjörtímabil til. Ólafur Ragnar er á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið og því mætti ekki útiloka að hann bjóði sig fram aftur.