Við Íslendingar eigum nokkrar deilur sem teygja sig áratugi aftur í tíma. Ein þeirra er um gagnsemiog gæði þess landbúnaðarkerfis sem við rekum.
Nýverið hefur verið töluverð harka í þeirri deilu, í kjölfar ákvörðunar verðlagsnefndar búvöru - sem er alvöru fyrirbæri með mikil völd - um að verð á mjólkurvörum ætti að hækka. Á meðal þeirra sem hafa látið í sér heyra er Finnur Árnason, forstjóri smásölurisans Haga, sem var með 48 prósent markaðshlutdeild á íslenska dagvörumarkaðnum í fyrra.
Finnur skrifaði grein í Fréttablaðið fyrr í vikunni þar sem hann sagði hækkun verðlagsnefndarinnar á smjöri óskiljanlega, vanhugsaða og óábyrga. Hún sé rúmlega þreföld hækkun á vísitölu neysluverðs og mun hækkunin því valda verðbólgu. Það muni leiða til þess að neytendur borgi mun hærra verð fyrir smjör auk þess sem verðtryggð lán heimila hækka.
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, svaraði Finni á sama vettvangi á fimmtudag. Þar bendir hann meðal annars á að Hagar hafi hagnast um 3,8 milljarða króna á síðasta rekstrarári og því hafi fyrirtækið svigrúm til þess að setja hækkun á mjólkurvörum ekki út í verðlagið. Sigurgeir sagði Finn einnig mega að spyrja sig að því „hvers vegna smjör hækkaði um 5,8% í smásölu frá því í október 2013 og fram í júlí á þessu ári, en þá var engin hækkun á heildsöluverðinu[...]Hann er því fyrirfram búinn að rukka fyrir helminginn af þeirri 11,6% hækkun sem verður 1. ágúst.“
Í niðurlagi greinar Sigurgeirs segir: „Forstjóra Haga er ætlað að gæta hagsmuna fyrirtækisins. Það er eðlilegt og honum hefur tekist ágætlega upp. En hann er ekki og mun aldrei verða talsmaður neytenda“.
Þetta eru orð að sönnu hjá Sigurgeiri. En sömu sögu má segja um hann sjálfan, ef mið er tekið af skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um mjólkurvöruframleiðslu á Íslandi sem birt var í júní. Þar kom fram að íslenska ríkið og eigendur þess, íslenskir neytendur, þurfa að borga um átta milljörðum krónum meira fyrir framleiðslu á mjólk á ári en ef mjólkin væri einfaldlega flutt inn.
Það ætti því að blasa við að í þeim deilum sem eiga sér stað á milli hagsmunaaðila í verslun og framleiðslu eru sérhagsmunir í aðalhlutverki hjá þeim sem takast á. Hvorugur þeirra getur með réttu kallað sig „talsmann neytenda“ þar sem báðir byggja afkomu sína á því að græða sem mest á þeim.