Allir hafa heyrt Hauk Morthens syngja um hann Bjössa á mjólkurbílnum sem ók eins og ljón, með aðra hönd á stýri (og steig bensínið í botn á fyrsta gíri). Engum sögum fer af því hvort Bjössi var með vasahníf en ef hann væri að aka um með brúsana, og vasahníf í Danmörku í dag væri vissara fyrir hann að vara sig, lögreglan myndi líklega taka af honum hnífinn og kæra kaupmanninn sem seldi honum hann.
Fyrir tveimur dögum var kveðinn upp dómur í bæjarréttinum í Óðinsvéum. Þar var kaupmaður sem á og rekur litla verslun með ýmis konar vörur fyrir sportveiðimenn sektaður um 100 þúsund krónur (tæpar 2 milljónir íslenskar krónur) fyrir að hafa í verslun sinni 44 ólöglega vasahnífa. Kaupmaðurinn, sem er gamall í hettunni, sagði fyrir réttinum að hann hefði selt svona hnífa í áratugi og kvaðst ekki vita hvað væri nú breytt.
Dómarinn sagðist fylgja lögum
Dómarinn sagði kaupmanninum að það gæti vel verið en lögin kvæðu einfaldlega á um að ólöglegt væri að selja hnífa sem hægt væri að opna með annarri hendi. Kaupmaðurinn spurði hvort þetta væru ný lög en fékk þau svör að svo væri ekki. Þá spurði kaupmaðurinn dómarann hvort hann treysti sér til að opna einn af hnífunum sem lágu á dómaraborðinu. Dómarinn sagði að það væri ekki til umræðu hér hversu leikinn hann væri með slíkt áhald.
Lögin segi að ef nokkur möguleiki sé á að hægt sé að opna hníf með annarri hendi sé sá hnífur ólöglegur. Punktur og basta.
Samtök danskra veiðimanna hafa harðlega mótmælt þessum dómi og öðrum svipuðum sem féll fyrir skömmu. Í næstu viku verður svo dæmt í þriðja hnífamálinu en sá kaupmaður sem þar á í hlut neitar að borga sekt (sem búið var að dæma hann í) fyrir að hafa 65 hnífa til sölu. Segist frekar sitja af sér í grjótinu en borga.
Stjórnmálamenn vilja breyta lögunum
Kosningar nálgast hér í Danmörku og eins og títt er við slíkar aðstæður vilja frambjóðendur gera ýmislegt til að öðlast hylli kjósenda. Danska ríkisútvarpið, DR, ræddi við átta þingmenn í dag, þeir ætla allir í framboð og voru allir sammála um að þessi hnífalög (sem þeir settu sjálfir) væru alveg út í hött.
Það hefði aldrei verið ætlunin að koma í veg fyrir að fólk gæti gengið með vasahníf á sér. Þingmennirnir lofuðu líka allir sem einn að þessum ólögum yrði breytt strax á næsta þingi, ef þeir fengju nokkru ráðið.
Dúkahnífar og fjölnotaverkfæri líka ólögleg
Nokkrar byggingavöruverslanir og stórmarkaðir hafa þegar brugðist við og fjarlægt hnífa úr hillunum. Það gildir um alla hnífa sem nokkur minnsti möguleiki er að hægt sé að opna með annarri hendi. Undir þetta falla meðal annars dúkahnífar og hin svokölluðu fjölnotaverkfæri, þar sem hnífur er meðal áhalda.
Eigandi einnar byggingavöruverslunar sagðist vera með 1500 dúkahnífa á lagernum. „Ég færi á hausinn ef ég fengi svipaða sekt og kaupmaðurinn sem var með 44 vasahnifa til sölu,“ sagði þessi kaupmaður. Ekki liggur ljóst fyrir hvort dúkahnifur er hnífur eða verkfæri í laganna skilningi.
Má selja til „viðurkenndra“ notenda
Lögin segja að hnífa, sem hægt sé að opna með annarri hendi, megi selja til viðurkenndra notenda. Kaupmenn segja útilokað að meta hverjir séu viðurkenndir notendur og þeir geti ekki krafið viðskiptavini um slík sönnunargögn og enginn viti hver þau ættu að vera.
Áðurnefndur kaupmaður ráðlagði fréttamanni sem við hann ræddi að ef hann ætti gamlan vasa- eða dúkahníf skyldi hann ekki henda honum. „Það er ekki víst að þú fréttamaðurinn verðir talinn viðurkenndur notandi,“ sagði hann.