Blaðamannafélagið hefur vísað kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara og hafa þegar farið fram fundir þar sem kröfugerð var til umræðu, en næsti fundur er á dagskrá miðvikudaginn 13. maí. Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, segir að gerð sé krafa um kauphækkanir til jafns við þá hópa nú eiga í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði. Líklegt má telja að reynt verði að ganga frá samningum, eftir að línur hafa tekist að skýrast hjá stærstu stéttarfélögunum, VR og Starfsgreinasambandinu þar á meðal. Ef ekki tekst að ná saman, er verkfall raunhæfur möguleiki, líkt og þegar er orðin raunin hjá tugþúsundum starfsmanna á vinnumarkaði um land allt. Kröfur verkalýðshreyfingar eru breytilegar eftir stéttum, en flest stéttarfélög hafa gert kröfu um 17 til 25 prósent hækkun launa á samningstíma.
Hjálmar segir að einnig sé gerð krafa um breytingu á launakerfi, meðal annars vaktakerfi og álagsgreiðslum sem tengdar eru vaktavinnu.
Fyrir hönd atvinnurekenda á fjölmiðlamarkaði eru Svanur Valgeirsson frá 365, Svanhvít Ljósbjörg Guðmundsdóttir frá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, Margrét Magnúsdóttir frá RÚV og Jón Rúnar Pálsson frá Samtökum atvinnulífsins þátttakendur í viðræðunum við Blaðamannafélagið, sem nú eru á borði ríkissáttasemjara eins og áður segir.